140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér tvö nefndarálit um tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Þegar maður les þessi tvö nefndarálit eru þau töluvert mikið á öndverðum meiði um gæði þessarar þingsályktunartillögu. Ég sakna þess, frú forseti, að hér eru engir stjórnarliðar í þingsalnum og það er eiginlega lítil umræða frá þeirra hálfu. Mér finnst umræðan líða mjög mikið fyrir það að spurningum er ekki svarað. Það væri miklu eðlilegra að hv. stjórnarliðar kæmu í andsvör við okkur stjórnarandstæðinga og svöruðu spurningum sem við setjum fram, fyrir utan náttúrlega að það væri eðlilegt að formaður nefndarinnar væri viðstödd sem er í rauninni að flytja málið, og að framsögumaður nefndarálitsins, Álfheiður Ingadóttir, væri viðstödd umræðuna og sýndi málinu þá virðingu.

Eins og ég sagði vantar mjög margt inn í þetta. Ég hef nefnt það áður og ætla ekki að fara að endurtaka það en bara rétt aðeins til að nefna stikkorð, Hagstofan, Hafrannsóknastofnun, hvar eiga þær stofnanir heima í nýju skipuriti?

Ég byrjaði að ræða um mannlega þáttinn síðast og ætla ekki að endurtaka það nema það var einn þáttur sem ég gleymdi og það er einmitt valdastrúktúrinn innan ráðuneyta. Nú er það svo að ráðuneytismenn hafa heilmikil völd, þeir hafa völd í þeim skilningi að þegar kemur nýr ráðherra þarf hann að kynna sér öll mál, og hvaðan kynnir hann sér það? Frá ráðuneytisstjórum og ráðuneytisfólkinu. Eftir því sem ráðuneytið er stærra þeim mun háðari er ráðherrann starfsmönnunum þannig að þessi þingsályktunartillaga með fækkun ráðuneyta og gífurlegri stækkun — þau eru nú þegar orðin óskaplega stór eins og velferðarráðuneytið og sjávarútvegs-, landbúnaðar-, efnahags- og viðskiptaráðuneytið þar sem ráðherrann hefur ekki einu sinni tíma til að flytja mikilvægustu frumvörp sín eins og sjávarútvegsmálin, hann hafði ekki tíma til að flytja þau mál — gerir það að verkum að völd ráðuneytisstjóra og ráðuneytismanna vaxa. Það er ekki á bætandi, held ég, að þau völd verði aukin.

Ég ætlaði að tala um annað, herra forseti, og það er óvissan sem þetta bætir ofan á alla þá óvissu sem er í þjóðfélaginu og algjörlega að óþörfu. Vegna þess að þegar þetta þingmál verður samþykkt og fer í gang, það verður í september sem það á að taka gildi, verður byrjað að breyta ráðuneytum og fara í gang með allar þessar breytingar sem kosta heilmiklar breytingar fyrir starfsmennina og fyrir þá sem leita til starfsmannanna, þ.e. viðskiptavina ráðuneytanna. Þetta býr til óreiðu. Svo er alveg á hreinu að þessar breytingar verða nokkurn veginn komnar í gegn þegar verður kosið og þá mun allt fara á hreyfingu aftur, af því að ég er nærri viss um að ný ríkisstjórn, og ég mun leggja það til, komi með svipaða breytingu, því að ég held að það sé mjög góð hugsun á bak við þetta ef þetta er framkvæmt í byrjun kjörtímabils. Ef Sjálfstæðisflokkurinn skyldi nú verða í ríkisstjórn næst, sem ég tel töluverðar líkur á, mun ég leggja til að hann komi með fullbúið skipurit fyrir ráðuneytin þar sem stendur nákvæmlega hvar hver stofnun á að vera, hvað ráðherrann heiti o.s.frv. þannig að það sé enginn efi um hvað menn eru að samþykkja, ekki eins og hérna þar sem þetta er blankó tékkur.

Þannig þurfum við að hugsa til framtíðar, að skipuritið og stjórnunin á þessu stærsta fyrirtæki landsins sem er ríkisvaldið, þetta er langstærsta fyrirtæki landsins með um 20 þúsund starfsmenn, að skipuritið á þessu fyrirtæki eða hvað við viljum kalla það eða stofnun, þessari sameiginlega stofnun, sé alveg á tæru, því að ég tel að í allri stjórnun sé það eitt mikilvægasta að skipuritið sé klárt og alveg á hreinu hver er yfir hverjum. Mér finnst, eins og ég hef nefnt áður, að hæstv. ríkisstjórn sé að missa af gullnu tækifæri til að koma með skilvirkt og skýrt skipurit yfir stjórnun ráðuneyta og annað slíkt fyrir utan það að koma með þetta þremur árum of seint.