140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:52]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bið þingmanninn um að endurskoða þau orð sín að markmiðinu hafi verið náð. Það var ekki nóg að losa sig við einn ráðherra sem stóð í lappirnar fyrir hönd íslensku þjóðarinnar, undirvinnan er eftir. Ég minni þingmanninn á að þingmannanefnd Evrópusambandsins ályktaði sérstaklega um þetta og fagnaði því að hæstv. þáverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason væri hættur í ríkisstjórn. Þetta eru náttúrlega eins frekleg afskipti af innanríkismálum og frekast getur verið, og minnir okkur á að nú er verið að keyra hér Evrópuviku hjá Evrópustofu og sendiráði Evrópusambandsins. Þetta er náttúrlega hneyksli og þetta er svo mikið inngrip í störf og líf einnar þjóðar að það er ekki einu sinni hægt að tala um það nema æsa sig. Og ég minni jafnframt á að sendiherra Kanada á Íslandi var bannað að taka til máls og bjóða gesti velkomna á ráðstefnu sem Framsóknarflokkurinn hélt um upptöku kanadadollars. Svona halda stjórnvöldin á spilunum.

Ég get hins vegar tekið undir það sem kom fram í andsvari hv. þm. Péturs H. Blöndals að nær væri hjá þessari verklausu ríkisstjórn að ræða stöðu heimilanna. Ég vil benda á að samkvæmt fyrirliggjandi dagskrá eru 35 mál á dagskrá, þar af sex EES-mál. Mál nr. 33 á dagskránni er eina málið sem hægt er að finna sem snýr að heimilunum í landinu, um greiðsluaðlögun einstaklinga, kærufrestsbreytingar samnings. Þetta er forgangsröðunin. Þetta er velferðarstjórnin. Þetta er hneyksli. Og svona er forgangsröðunin.

Við skulum ekki gleyma því að það kom fram í umræðum í morgun að ríkisstjórnin hefur raunverulega engan áhuga á (Forseti hringir.) stöðu heimilanna. Engan.