140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki svarað þessari ágætu spurningu hv. þingmanns með fullri vissu. Ég veit hins vegar að ráðuneytabreytingin er tengd aðildarumsókninni, það er ekkert feimnismál í plöggum sem fara frá íslenskum stjórnvöldum til Evrópusambandsins en þegar minnst er á það í þinginu verður það skyndilega mikið viðkvæmnismál og því er hafnað ítrekað að um nokkur tengsl sé að ræða.

Þess vegna spurði ég áðan: Hvort er verið að reyna að blekkja Evrópusambandið eða Alþingi Íslendinga? Er verið að blekkja Evrópusambandið með því að halda því fram að gerðar séu einhverjar breytingar hér innan lands til þess að hjálpa til við aðildarferlið, þótt þær skipti engu máli í því sambandi og séu til komnar af einhverjum öðrum ástæðum? Eru þá plöggin sem ráðuneytin og ráðherrarnir senda til Evrópusambandsins með einhverjum slíkum blekkingum, leiktjöldum? Eða er hæstv. ríkisstjórn svona óskaplega viðkvæm fyrir þessum Evrópusambandsmálum þegar þau koma til umræðu í þinginu? Telur hæstv. ríkisstjórn að tengslin við Evrópusambandsumsóknina, sem er nú eitt af aðalmálum hennar eins og hæstv. forsætisráðherra hefur ítrekað lýst yfir, geti eyðilagt fyrir einhverjum öðrum málum sem ríkisstjórnin kemur með í þingið ef þau eru tengd Evrópusambandsumsókninni? Það eru mjög áhugaverðir fletir á málinu sem maður getur velt fyrir sér.

Ég tek að minnsta kosti undir það með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að það er furðulegt og óskiljanlegt að talsmenn ríkisstjórnarinnar skuli ítrekað hafna því í sölum Alþingis að það séu tengsl þarna á milli meðan þeir sitja sjálfir við skrifborðin sín og senda bréf til Evrópusambandsins sem gefa allt annað til kynna.