140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að herra forseti hljóti að geta tekið undir það með mér að það var mjög sláandi að heyra upplestur hv. þingmanns áðan á fyrri yfirlýsingum hæstv. forsætisráðherra um þetta mál. Yfirlýsingar sem voru vægast sagt afdráttarlausar og ganga algjörlega í berhögg við málflutning hæstv. forsætisráðherra núna. Og það er rétt sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að þeim mun meira sem menn skoða þetta mál og ræða það þeim mun óskiljanlegra verður það.

Mig langaði að nota tækifærið til þess að tappa aðeins af reynslu hv. þingmanns sem hefur reynslu af því að sitja sem ráðherra og spyrja hann út í ákveðna hlið á þessu máli sem kom til umræðu áðan sem er sá órói sem skapast í ráðuneytum við það að ráðast í svona breytingar. Óvissan og ekki síður auðvitað vinnan við að framkvæma breytingarnar taka að sjálfsögðu mikinn kraft. Það verður mikið álag, geri ég ráð fyrir, í ráðuneytinu þegar ráðist er í svona breytingar, bæði vegna óvissunnar og vegna vinnunnar sjálfrar.

Getur hv. þingmaður lagt mat á það fyrir mig hversu mikið umrót hlytist af þessum breytingum? Ástæðan fyrir því að þetta er sérstaklega mikilvæg spurning núna er sú að ráðuneytin ættu að fá frið til að takast á við mjög stór úrlausnarefni sem hafa beðið úrlausnar allt of lengi, en einnig vegna þess að það er nánast ljóst að jafnvel þó að hæstv. forsætisráðherra kæmi þessum breytingum í gegn mundu þær bara gilda í hálft ár, þá væri ráðist í að laga þetta aftur. Hver er fórnarkostnaðurinn í formi vinnuálags og óvissu?