140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vita auðvitað allir að þegar ríkisstjórn kemur með svona stórfelldar breytingar á lokaspretti kjörtímabils síns er verið að tjalda til einnar nætur. Það kemur fram í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar sem flytur þetta mál inn í þingið að kostnaðurinn, beini kostnaðurinn, mér skilst að það sé aðallega húsnæðiskostnaður, sé eitthvað á þriðja hundrað millj. kr. Ég geri ráð fyrir að hægt væri að verja þessum fjármunum til mjög margra verðugra verkefna. Það sem verður hins vegar ekki hægt að meta til fjár er í fyrsta lagi sú óvissa sem hefur grúft yfir stjórnsýslunni, ekki aðeins frá því að þessi tillaga var lögð fram, heldur frá því að farið var að ræða um það á haustdögum að fram undan væri þessi uppstokkun. Síðan er hitt að meðan verið er að hrinda þessum breytingum í framkvæmd hefur það líka mikinn kostnað í för með sér og óvissu sem ég hygg að seint verði metin endanlega til fjár.