140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að líta yfir salinn og sjá að engir stjórnarþingmenn eru hér til þess að taka þátt í þessari umræðu. Svo virðist sem það sé takmarkaður áhugi á umræðum á þeim bænum. Það er hins vegar eitthvert ósamræmi, mundi ég telja, í ljósi þess að það er aðaláherslumál ríkisstjórnarinnar að keyra í gegn breytingar á Stjórnarráðinu. Við erum með að minnsta kosti 30 önnur mál á dagskrá þessa fundar sem þyrfti að ræða og koma til nefndar en þetta mál er sett í forgang.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort þingmaðurinn geti tekið undir það með mér að það væri snjallt að fresta þessu máli, ýta til hliðar og hleypa öðrum málum að til að hægt sé að ræða þau og koma þeim til nefndar. Það er ljóst að það er engin samstaða um þetta mál. Það er ekki samstaða milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það er heldur ekki samstaða innan stjórnarflokkanna um málið. Það er einhvers konar þráhyggja að halda þessu máli í þinginu. Þar af leiðandi er það þráhyggja hjá þeim sem vilja ekki leggja málið til hliðar og hleypa öðrum málum að.

Það stendur ekki á okkur, stjórnarandstöðunni, að liðka til og fresta þessu máli, fram yfir helgi til dæmis þannig að hægt sé að ræða hér í kvöld og á morgun vörumerki, innstæðutryggingar, vinnustaðanámssjóð og ýmis fleiri ágætismál sem eru á dagskrá. Við fáum þessi mál ekki rædd þó að við séum reiðubúin að liðka til.

Því hlýt ég að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um að það væri rétt að gera hér breytingar á dagskrá til að þessi mál komist áfram.

Önnur spurning tengist aðeins þeim spurningum sem hér voru lagðar fram áðan: Þarf frekari vitna við um áhrif Evrópusambandsins á þetta brölt allt saman þegar við höfum fengið staðfestingar hjá fyrrum ráðherra á því hvernig á þessum málum er haldið (Forseti hringir.) og af hverju?