140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað væri skynsamlegast í þeirri stöðu sem við erum í núna, þar sem þingið er í þessu uppnámi vegna þess að ríkisstjórnin kom seint með málin sín inn í þingið, vegna þess að ríkisstjórnin hefur verið að setja á dagskrá stór og alvarleg og flókin mál, að ýta þessu máli til hliðar. Allir sem skoða þetta, a.m.k. faglega, eru sammála um að það sé ekki mjög viturlegt að taka fyrir uppstokkun á Stjórnarráði í lok kjörtímabils. Það reyna menn yfirleitt að gera í upphafi þess.

Ríkisstjórnin taldi sig knúna til að fara í þessa uppstokkun, ekki af efnislegum ástæðum heldur pólitískum. Það lá á að gera ákveðna uppstokkun í ráðherrahópnum og skipa málum þar öðruvísi. Fyrir því lágu einfaldlega pólitískar ástæður, það var pólitísk nauðsyn af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þess vegna er þetta mál í svona miklum forgangi.

Á föstudaginn var náðist í þinginu niðurstaða sem hæstv. forseti þingsins hafði veg og vanda af, niðurstaða um að fresta málinu um sinn og taka fyrir önnur mál. Hvað gerðist? Það var hér rífandi gangur. Hér voru afgreidd fjöldamörg mál sem sýndi það að stjórnarandstaðan var meira en tilbúin til þess að greiða fyrir málum þannig að þau kæmust ýmist í þingnefndir eða hægt væri að afgreiða þau með öðrum hætti.

Með öðrum orðum hefur stjórnarandstaðan sýnt það algjörlega svart á hvítu að hún vill gjarnan eiga gott samstarf við stjórnarliðið, en þá verður það auðvitað að vera gagnkvæmt. Það sem við sjáum hins vegar og mætir okkur er gríðarleg óbilgirni og þrákelkni og ekkert annað. Hæstv. forsætisráðherra er mjög upptekin af forminu. Við sjáum það að hæstv. ráðherra fer austur á land og fagnar þeim breytingum sem verið er að gera þar á stofnanakerfi. Það eru út af fyrir sig ágætar breytingar en á sama tíma leggur hæstv. ráðherra stein í götu helsta atvinnuvegar Austfirðinga sem er sjávarútvegurinn. Hæstv. ráðherra sker (Forseti hringir.) síðan niður framlög til heilbrigðismála á því svæði og veikir það á sama tíma og hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hreykir sér af því að nú sé komið gott form á samskipti ríkisins og sveitarfélaganna á Austfjörðum.