140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:52]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði áðan að hæstv. ríkisstjórn væri óskaplega upptekin af forminu. Það leynir sér ekki, það kemur alltaf fram, en það vill hins vegar þannig til að form Stjórnarráðsins skiptir líka miklu máli fyrir þá efnislegu niðurstöðu sem frá Stjórnarráðinu kemur. Þess vegna er þetta nátengt. Það sem hæstv. ríkisstjórn er að gera er að setja form Stjórnarráðsins í uppnám. Það sem menn lærðu á sínum tíma, fyrir árið 1969, var að það þyrfti að hafa mjög stíft form á öllu sem sneri að Stjórnarráðinu. Menn höfðu fengið sig algjörlega fullsadda. Þá gerðist það að ríkisstjórnin lét sér allt í einu detta í hug að nú væri um að gera, á sama tíma og við erum hér í umrótsástandi í samfélaginu, að skapa formleysi í kringum Stjórnarráðið og eyðileggja þá skipan sem hafði reynst vel um áratugi og um leið veikja stjórnsýsluna okkar. Það er það sem við erum að gera. Ég ítreka það að á næstu vikum, mánuðum og missirum munum við sjá veikari (Forseti hringir.) stjórnsýslu á Íslandi en áður.