140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Í ræðu hér fyrr í dag nefndi ég að það væri gott ef hæstv. forsætisráðherra gæti verið eitthvað við þessa umræðu. Ég hef skilning á því að hæstv. forsætisráðherra geti vegna annarra embættisstarfa ekki verið við alla umræðuna, en ég held að það sé hins vegar nauðsynlegt að hæstv. forsætisráðherra komi eitthvað til umræðunnar til að svara fjöldamörgum spurningum sem varða útfærslu þessara tillagna. Ég hygg að enginn sé betur til þess fallinn en hæstv. forsætisráðherra að greina frá þeim áformum sem eru um útfærsluna og raunverulega verkaskiptingu, sérstaklega milli atvinnuvegaráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Spurningum í þeim efnum hefur ekki verið svarað í umræðum í þinginu og hefur ekki verið svarað í störfum nefndar. Gögn málsins gefa afar takmarkaða mynd af því hver framtíðarsýnin er að þessu leyti. Það er hins vegar eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra gefi áður en þessari umræðu lýkur nánari (Forseti hringir.) lýsingu á því í hvaða átt er verið að stefna með þeim breytingum sem fylgja þessari þingsályktunartillögu.