140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:54]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þessi orð hv. þm. Birgis Ármannssonar. Það er mjög nauðsynlegt að hæstv. forsætisráðherra sé við þessa umræðu. Í ræðu minni áðan fór ég mjög yfir ummæli hæstv. ráðherra frá því í árslok 2011 og vakti athygli á því hversu illa þau rímuðu við það sem hæstv. forsætisráðherra boðar síðan í þessari þingsályktunartillögu.

Vegna þess að ég er almennt talað fremur sanngjarn vil ég segja að ég hef hins vegar skilning á því að hæstv. forsætisráðherra sé ekki við umræðuna. Það er mikið um að vera þessa vikuna. Er ekki svokölluð Evrópuvika í gangi? Og hæstv. forsætisráðherra er sjálfsagt upptekin við lúðrablástur og söng og húrrahróp sem fylgja Evrópuvikunni. Mér skilst að hið mikla hús, Harpa, verði til dæmis tekið frá fyrir hátíðir af þessum ástæðum og hæstv. ráðherra er kannski upptekin við hátíðahöld vegna Evrópuvikunnar. Ég hefði þá ímyndað mér að hæstv. ráðherra mundi óska eftir því að vera ekki trufluð við störf sín í Evrópuvikunni með umræðu hér um Stjórnarráðið og af tillitssemi við hæstv. ráðherra væri eðlilegt að óska eftir því að málinu yrði frestað af þeim ástæðum.