140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:24]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er full ástæða til að taka undir það með hv. þingmanni að við ættum að sjálfsögðu að vera að ræða hér stöðu heimilanna frekar en þessar kerfisbreytingar sem munu, þótt þær verði samþykktar, að öllum líkindum bara gilda í hálft ár en geta engu að síður valdið heilmiklu tjóni á þeim tíma.

Ég ítreka spurningu mína: Hver er skýringin á viðsnúningi meiri hluta þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessu máli? Eins og hv. þingmaður fór mjög vel og ítarlega í gegnum í ræðu sinni liggur fyrir að þetta frumvarp hæstv. forsætisráðherra stangast á við stefnu Vinstri grænna, það stangast á við samþykkt flokksráðsfundarins þar sem stefna VG var ítrekuð og það stangast svo sannarlega á við fyrri yfirlýsingar til að mynda formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar. Það hvernig að þessu er staðið hefur algjörlega brotið öll þau grundvallarviðmið sem hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon lýsti að þyrftu að vera í hávegum höfð við svona vinnu og að sjálfsögðu er efni frumvarpsins þess eðlis að það brýtur í bága við þá stefnu sem hæstv. ráðherra hefur boðað í gegnum tíðina.

Hver er skýringin á þessum viðsnúningi? Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður sé sammála mér um að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sé nú að beita sér gegn stefnu eigin flokks, það liggur bara fyrir, hv. þingmaður er búinn að lesa það upp hér, en hvers vegna fer formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs svona harkalega gegn því sem flokksráðsfundur sá sérstaklega ástæðu til að árétta?