140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:28]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Jón Bjarnason hvenær rætt hafi verið um þessa breytingu á ráðuneytaskipaninni. Við þekkjum þessa umræðu um atvinnuvegaráðuneytið, þ.e. að færa iðnaðarráðuneytið inn í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, og margir hafa haft miklar efasemdir um hvort það væri rétt skref, það væri of mikið fyrir einn hæstv. ráðherra að sinna öllum þessum málaflokkum, en núna er tekin sú ákvörðun að setja bankamálin til viðbótar, Fjármálaeftirlitið og það allt saman, inn í þetta ráðuneyti.

Hv. þingmaður hefur reynslu af því að sitja í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Telur hann þetta ekki bara allt of stórt ráðuneyti? Mun þetta ekki til að mynda bitna á sjávarútvegsmálunum eða landbúnaðarmálum eða ferðamálunum eða öðru því sem á að fara inn í þetta ráðuneyti? Einhvern veginn sé ég það fyrir mér. Þessi ráðuneytaskipan hefur virkað þannig á mig að þegar búið verður að stækka ráðuneytin svona mikið verði yfirsýnin ekki nægilega mikil. Það kemur ekkert við þeim einstaklingum sem sinna þessum störfum á hverjum tíma, ég held bara að verkefnin séu svo yfirdrifin að það geti bitnað á því starfi sem hæstv. ráðherra þurfi að sinna. Auðvitað þurfum við að hlúa að undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar og ég taldi það bara algjörlega fullt starf. Mig langar því að kalla eftir skoðun hv. þingmanns á því.

Hvenær var þetta kynnt í þingflokkunum? Þetta virðist bara gerast einhvern veginn um áramótin í kjölfar þess að það er gerð uppstokkun á ríkisstjórninni og tíminn líður og þetta kemur svo upp nokkrum vikum seinna. Það var líka mjög merkilegt að bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra svöruðu því í þinginu í desembermánuði að ekki stæði til að fara í þessa vegferð. Ég spyr hv. þingmann: Hvenær var eiginlega kynnt í til að mynda þingflokki Vinstri grænna að það stæði til að fara í þessar breytingar?