140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:31]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Styrkur íslenskrar stjórnsýslu hefur einmitt verið stuttar boðleiðir, það að ráðherrar væru tiltölulega nátengdir þeim verkefnum sem þeim voru falin og þeir báru ábyrgð á sem ráðherrar. Menn geta verið sáttir við ráðherrann á hvorn veginn sem er en boðleiðirnar verða að vera sem allra stystar. Í litlu landi eins og okkar skiptir það gríðarlega miklu máli, enda er stjórnsýslan hér miklu fámennari en almennt er erlendis. Ég held þess vegna að það sé rangt að fækka ráðuneytunum því að það lengir þær boðleiðir sem hinir almennu borgarar, íbúar, fulltrúar atvinnulífs eða fulltrúar annarra hagsmuna þurfa að sækja inn í ráðuneytin.

Ég man ekki eftir að sú umræða um efnahags- og viðskiptaráðuneytið sem hv. þingmaður spurði um yrði af neinni alvöru fyrr en eftir að búið var að víkja mér frá sem og þáverandi ráðherra efnahags og viðskipta, Árna Páli Árnasyni. Við vorum ekki hafðir með í ráðum um það mál, það er alveg óhætt að segja það. Ég ítreka að fyrir lítið land eins og okkar, (Gripið fram í.) fyrir land frumgreina, fyrir land hinna dreifðu byggða, skiptir stutt stjórnsýsla, stuttar boðleiðir og öflugir og góðir ráðherrar miklu máli. Það er þannig sem við þurfum að hafa það.