140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:35]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá þingmanninum, það er eins og Evrópusambandsumræðan sé eitthvert feimnismál á þingi, þingmenn og ráðherrar þora ekki að taka þá umræðu almennilega. Ég óskaði eftir sérstakri umræðu um stöðuna í Evrópusambandsviðræðunum og ályktun Evrópuþingsins frá því í febrúar og mars, óskaði eftir sérstakri umræðu um það mál við forsætisráðherra sem var þá nýbúin að tjá sig afar fjálglega um að það gæti ekkert gott gerst á Íslandi fyrr en það væri komið í Evrópusambandið. Forsætisráðherra hefur hins vegar ekki lagt í þá umræðu, hún hefur hafnað henni.

Við getum deilt um hvort það eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Ég er því andvígur, aðrir eru því fylgjandi og ég virði skoðun manna í þeim efnum. En þá verða menn líka að vera menn til að standa með henni. Þegar við erum að tala um breytingar á ráðuneytunum, þó að það sé ekki hægt að segja með beinum hætti að á ákveðnum sviðum sé verið að breyta í þágu Evrópusambandsins, er stöðugt komið að því í svörum til Evrópusambandsins að verið sé að breyta þessu og hinu sem ætti að geta svarað kröfum Evrópusambandsins.

Það er alveg sérstakt að Evrópuþingið skuli sjá sérstaka ástæðu til þess að álykta um íslensk innanríkismál eins og að fagna því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé látinn fara og vonast til að breytingarnar á ríkisstjórninni leiði til þess að umsókninni um aðild að Evrópusambandinu verði fylgt eftir af enn meiri einurð. Líklega er enn meiri einurð innan ríkisstjórnarinnar núna eftir að ég er farinn, ég efast ekkert um það, en er það það sem við óskuðum eftir, að Evrópusambandið hefði hér beina íhlutun í íslenskum innanríkismálum? Eða að Evrópusambandið fagnaði breytingum (Forseti hringir.) á ráðuneytum sem höfðu þá þegar átt sér stað og hvetti til þess að áfram yrði haldið á (Forseti hringir.) sömu braut?

Mér finnst þarna mjög langt gengið og vil miklu sjálfstæðara Ísland, herra forseti.