140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:48]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir flest eða allt af því sem kom fram í máli hv. þingmanns en ég mundi gjarnan vilja spyrja hann nánar út í eitt atriði. Hv. þingmaður talaði töluvert um kostnaðinn við breytingar á húsnæði, sem mun líklega slaga upp í hálfan milljarð eins og hv. þingmaður nefndi. En hvað finnst hv. þingmanni þá um allan þann gríðarlega óbeina kostnað sem af þessu hlýst? Er ekki ástæða til að hafa jafnmiklar áhyggjur af honum? Þegar verið er að ráðast í svona breytingar til hálfs árs — það liggur nánast fyrir að breytingin muni ekki gilda nema í hálft ár þó að í hana verði ráðist og þá þarf aftur að fara í breytingar — þá skapar það gríðarlega mikla óvissu hjá öllum starfsmönnum hinna mörgu ráðuneyta sem þar eru undir. Það skapar álag, óvissan veldur miklu álagi því að fólk er kannski ekki eins vel í stakk búið til að sinna öðrum hlutverkum á meðan, auk þess sem framkvæmdin sjálf, það að standa í breytingunum, veldur því að menn eru ekki í öðru á sama tíma. Þetta er alveg sérstakt áhyggjuefni einmitt þessa dagana þegar við þurfum á því að halda að ráðuneytin séu að beita sér í uppbyggingu, í að leysa vandamál heimila, í að byggja upp atvinnu í landinu. Þá er kostnaðurinn af því að þau séu ekki í stakk búin til að gera þessa hluti þeim mun meiri.

Við sáum í gær kostnaðarmat hvað varðar stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar í virkjanamálum. Þar er talað um 270 milljarða, meðal annars vegna tapaðra atvinnutækifæra. Er ekki hætt við því að kostnaðurinn af því að setja öll ráðuneytin meira og minna í uppnám sé líka gríðarlega mikill?