140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samanburðurinn við niðurskurðinn í heilbrigðisþjónustu er að sjálfsögðu mjög sláandi. Hér er verið að kasta peningum út um gluggann, eyða mörghundruð milljónum króna — og ég er því miður sammála hv. þingmanni um að í ljósi reynslunnar verður þetta örugglega hærri tala og jafnvel enn hærri en nemur hærra matinu, kostnaðurinn á endanum.

Á sama tíma og verið er að skera niður í heilbrigðisþjónustunni henda menn peningum út um gluggann með þessum breytingum. Við skulum hafa í huga að þegar ný ríkisstjórn tekur við og stendur frammi fyrir því að þurfa að laga þessar vanhugsuðu breytingar — þær eru svo sannarlega vanhugsaðar, ekki hefur verið hægt að útskýra fyrir okkur neitt í þessu að ráði — þá mun það aftur fela í sér kostnað. Þá bætist enn við kostnaðinn og óbeina kostnaðinn sem ég nefndi áðan, óvissuna og vinnuna við að standa í breytingunum, svo að allt þetta ævintýri til einskis gert, nema hugsanlega til að geta sent eina skýrslu til Evrópusambandsins, mun að öllum líkindum á endanum kosta meira en nemur niðurskurðinum í heilbrigðisþjónustunni.

Það er grátlegt að horfa upp á svona hluti gerast algerlega að ástæðulausu. Svo fæst hæstv. forsætisráðherra ekki einu sinni til að koma hingað og ræða þessi mál eða útskýra hvað hún er eiginlega að fara með þessum hugmyndum sínum sem ganga í berhögg við það sem hún hefur boðað áður.

Það liggur við að maður fyllist örvæntingu yfir þessu ástandi, að svona sé komið fyrir stjórn landsins. Menn leyfa sér að henda hundruðum milljóna króna í tilgangslausar breytingar til sex mánaða til að geta hugsanlega sent eitt bréf til Evrópusambandsins og sagt: Sjáið þið, við gerðum það sem þið báðuð um — en eru á sama tíma að skera niður í heilbrigðisþjónustunni.