140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Það er rétt að geta þess í ljósi umræðunnar sem hefur átt sér stað um umfang þessara umræðna að ég er að ræða þetta mál í fyrsta sinn og ætla mér að nýta þær mínútur sem ég hef til að fara yfir þetta mál og það sem mér finnst mega betur fara. Það er ljóst að fara þarf mjög gaumgæfilega yfir þetta mál sem tengist breyttri skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Þessi þingsályktunartillaga er sett fram undir forustu hæstv. forsætisráðherra, m.a. til að fylgja eftir þeim breytingum sem gerðar voru á lögum um Stjórnarráðið.

Ég vil draga strax fram að það er engan veginn óeðlilegt að gerðar séu breytingar á Stjórnarráði Íslands, síður en svo. En þá verða menn að hafa skýra sýn og ákveðin markmið. Það verður að segjast eins og er að ríkisstjórnin, sem nú hefur setið í þrjú ár því miður og ætlar sér að hanga á stjórnarsamstarfinu eins og hundur á roði, hefur ekki haft skýra sýn á það hvert hún vill fara varðandi breytingarnar á Stjórnarráðinu því það hefur verið slegið úr og í í öllu þessu máli og eftir situr, þegar maður fer út á meðal fólks og reynir að útskýra hvað um er að ræða, að enginn skilur hvert ríkisstjórnin er að fara í þessu máli, sem og reyndar öðrum.

Gott og vel. Ég hefði haldið að ef menn væru með þetta svo mjög á hreinu væri einfalt að leggja fram skipurit um Stjórnarráðið og hvernig menn sæju uppbyggingu þess til lengri tíma. Svo er ekki. Við höfum hvergi séð hvaða sýn núverandi forsætisráðherra hefur, til dæmis á það undir hvaða ráðuneyti mikilvægar stofnanir sem starfandi eru á vegum Stjórnarráðsins eiga að heyra. Það kemur mér mjög á óvart því að menn höfðu fagnað því sérstaklega að gerðar voru úttektir á ýmsum þáttum strax eftir hrunið. Hingað komu ýmsir merkir fræðingar og skiluðu merkum skýrslum sem var fagnað af vel flestum, t.d. skýrslu Kaarlos Jännäris og fleiri um hvernig ætti m.a. að haga skipun Fjármálaeftirlitsins.

Ég hefði líka haldið, í ljósi orða fyrrum fjármálaráðherra og núverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, að menn ætluðu sér að fara í þann leiðangur að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann í eina stofnun. Það hefur ekki verið gert þrátt fyrir fjölda ráðlegginga, mikla íhugun og yfirlegu um hvað væri skynsamlegast að gera í þessu ástandi. Ég hef ekki enn þá heyrt nægilegar útskýringar frá hæstv. ráðherra af hverju menn hafa horfið frá því markmiði sem ég hélt að lægi fyrir að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann. Það hefur ekki verið útskýrt að mínu mati í þinginu.

Ég spyr líka: Ef þetta er svona mikilvægt mál sem á að keyra í gegn, af hverju er því ekki gefinn meiri tími? Nú sit ég ekki í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og það er með ólíkindum að sjá hraðann á þessu máli. Það mætti ætla að þetta væri mikilvægasta mál ríkisstjórnarinnar, það sem ætti að koma samfélaginu af stað inn í bjartari framtíð, mál sem kæmi okkur úr þeirri kyrrstöðu sem við erum stödd í inn í aðeins bjartari framtíð. Nei, svo er ekki. Engu að síður er þessi tillaga forsætisráðherra lögð fram á Alþingi 30. mars. Það er eins og menn vita síðasti dagurinn sem er heimilað að leggja inn ný þingmál lögum samkvæmt án þess að þau séu tekin inn og samþykkt með afbrigðum. Síðan var þessi þingsályktunartillaga tekin fyrst til umræðu 17. apríl og afgreidd til nefndar strax daginn eftir, sem er algerlega eðlilegt. Fyrsti fundur nefndarinnar um málið fór fram 24. apríl og þá kynntu fulltrúar forsætisráðuneytisins efni hennar og ýmis gögn sem maður hefði haldið að ættu að liggja alveg skýr fyrir í málinu, mér finnst það ekki koma fram í greinargerðinni. Það er engan veginn þannig. Ég hefði haldið að eftir þetta hefðu menn sent tillöguna út til umsagnar. Menn funduðu með gestum en fengu ekki að senda málið út til umsagnar og ég spyr: Af hverju ekki? Ég hlýt að ætla að hv. þingmaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Valgerður Bjarnadóttir útskýri af hverju málið var afgreitt með þessum hætti úr nefndinni. Þetta er algerlega óskiljanlegt. Ef það er svona mikilvægt að afgreiða tillögu um Stjórnarráð Íslands, tillögu sem á að fela í sér úrbætur í stjórnsýslunni, og enginn er á móti úrbótum, þá hefði maður haldið að menn fengju meiri tíma til að fara yfir hana til að breytingarnar mundu skila sér í raunverulegum úrbótum til lengri tíma en ekki einhverjum bútasaumi sem hentar hverri ríkisstjórn hverju sinni. Það er vont ef þessi flumbrugangur, þetta litla gegnsæi og óvissa eigi að standa yfir í tvö, þrjú ár og hugsanlega fjögur ár í mesta lagi, þ.e. eitt kjörtímabil, og síðan verði aftur tekið til við það að breyta öllu havaríinu.

Það er ótrúlegt hversu mörg tækifæri ríkisstjórnin hefur haft til að horfa til lengri tíma en bara út kjörtímabilið. Ég nefni rammaáætlun. Það er einstakt tækifæri, herra forseti, fyrir þingið, fyrir alla stjórnmálaflokka að komast að samkomulagi um nýtingu og verndun á náttúru Íslands öllum til hagsbóta. Þar lét ríkisstjórnin sér tækifæri úr greipum renna þegar hún hróflaði við margra ára vinnu, meira en tíu ára vinnu sem lá til grundvallar því að menn ætluðu að reyna að ná þverpólitískri sátt um verndun og nýtingu vatnsafls og hita í landinu. Ríkisstjórnin þurfti að gera pólitíska málamiðlun og málamiðlun er sú rammaáætlun sem nú liggur fyrir. Mönnum hefði verið í lófa lagið að reyna að negla svolítið niður stjórnmálaflokkana, ef svo má að orði komast. Ég sagði einmitt í ræðu um rammaáætlunina: Af hverju nýttu menn ekki tækifærið og stilltu okkur sjálfstæðismönnum upp við vegg í þessu máli og Vinstri grænum líka og öllum þar á milli? Þetta var kærkomið tækifæri til að ná sátt um það sem okkur öllum er kært, náttúru Íslands, en er um leið svo mikilvægt fyrir okkur til að halda uppi hagvexti og þróun til lengri tíma. En það tækifæri rann úr greipum ríkisstjórnarinnar, alveg eins og ríkisstjórnin er að mínu mati að renna á rassinn með þessa tillögu um breytta skipan í Stjórnarráðinu.

Ef menn hefðu lagt sig aðeins fram og rýnt í það sem allir stjórnmálaflokkar á þingi hafa sagt um Stjórnarráðið, geta menn auðveldlega greint að allir flokkarnir eru tilbúnir til að endurskoða skipulagið á Stjórnarráðinu með tilliti til gagnsæis, skilvirkrar stjórnsýslu og að stjórnsýslan sé til að þjónusta fólkið og fyrirtækin í landinu. Hér er það algerlega óljóst. Hér gildir enn og aftur hentistefnan til að menn geti annaðhvort hakað við það sem þeir eru búnir að koma í framkvæmd með góðu eða illu eða hitt, sem ég tel líklegra eins og með rammaáætlun, að menn séu að breyta þessu til að halda ríkisstjórninni saman.

Þetta fer að verða svolítið dýrt, herra forseti. Allar þessar pólitísku krumlur sem fara inn í hvert málið á fætur öðru, mál sem hægt er að ná sátt um en það er hrist upp í þeim og útkoman er einhver óskapnaður eins og þetta mál sem við ræðum núna. Öll tækifæri til víðtækari sáttar fljóta hjá vegna vinnubragða, verklags og verkstjórnar ríkisstjórnarinnar. Það er sárgrætilegt.

Ég hefði líka haldið, ef þetta er svona óskaplega mikið mál að gestir megi ekki einu sinni koma fyrir þingnefndina, ef þetta er svona mikið mál fyrir ríkisstjórnina, að þetta yrði meira baráttumál. Kannski ekki síst fyrir Samfylkinguna sem er reyndar, miðað við orðræðuna innan Alþingis en líka í fjölmiðlum, klofin í þessu máli eins og í mörgum öðrum. Hún kemur ekki sátt að málinu og ég verð að segja að þau sjónarmið sem fyrrverandi ráðherra og hv. þm. Árni Páll Árnason hefur látið frá sér fara í þessu máli eru mjög skiljanleg. Ég held að kominn sé tími til að menn innan Samfylkingarinnar hlusti á fleiri og hlýði fleirum en þeim formanni sem þar er. En ég spyr stjórnarliðið: Ef þessar breytingar eru svona mikið mál fyrir ríkisstjórnarflokkana, af hverju fara þeir þá ekki í kosningar með þetta plagg? Af hverju er þetta ekki bara baráttumál? Af hverju segja stjórnarliðar ekki: Við ætlum að berjast fyrir breyttri stjórnsýslu og við ætlum að hafa hana svona? Ekki eru þeir hræddir við kjósendur út af þessu, ég trúi því ekki. Af hverju spyrja þeir ekki kjósendur um þetta í næstu kosningum, sem verða sem betur fer innan árs í síðasta lagi? Af hverju segja þeir ekki: Við viljum breyta Stjórnarráðinu svona, við viljum kannski ekki tala voðalega mikið um þetta eða standa við það sem við sögðum í upphafi kjörtímabilsins, en við ætlum að breyta þessu svona? Af hverju er það ekki gert? Af því að í svona máli þar sem engin skýr sýn liggur fyrir verður þetta grautarlegt og ruglingslegt og menn vita í raun ekki hvert þeir eru að fara. Það er sama hvaða stjórnarþingmenn maður spyr, það hrista allir hausinn. Það má kannski ekki segja þetta en hér hrista allir hausinn á göngunum og skilja ekkert hvert verið er að fara og segja: Vonandi verður þetta látið kyrrt liggja. Það er von að menn óski eftir því og ég vil taka undir þær óskir og þær vonir stjórnarþingmanna. Sem betur fer átta ákveðnir þingmenn í meiri hlutanum sig á því að þessi tillaga er ekki á vetur setjandi, að mínu mati, hún er vanbúin, vanreifuð. Og það hefði verið hægt að gera svo margt.

Ég hef marglýst því yfir, meðal annars innan míns flokks, að ég taldi skynsamlegt og studdi það á sínum tíma að sameina landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti. Ég taldi það þjóna málaflokknum, það yrði dýnamískara og skilvirkara og mundi þjóna málaflokknum betur. Það mætti svo sannarlega ræða að sameina iðnaðarráðuneytið þar við, ef auðlindamálin mundu fylgja með líka en ekki væri farin sú leið sem hér á að fara og skilja þar á milli. Og það er mjög stór munur á þeirri leið sem ríkisstjórnin er að fara og þeirri sem ég nefndi.

Það er með ólíkindum að lesa kaflann í þingsályktunartillögunni um sameiningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Menn eru að reyna að finna einhverja samsvörun á Norðurlöndunum en það er langur vegur frá því að hún finnist. Ég undirstrika aftur það sem ég sagði um Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið áðan: Af hverju í ósköpunum hafa menn horfið frá þeirri hugmynd að sameina þær stofnanir?

Þegar menn lesa þessa tillögu og hafa í huga þá umræðu sem varð í tengslum við frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands sem samþykkt var árið 2011, er þessi þingsályktunartillaga eins og menn hafi ákveðið að gefa eitthvað í jólagjöf, taka kassa og pakka honum inn en eiga alveg eftir að ákveða hvert innihaldið eigi að vera. Þetta er svona sitt lítið af hverju, engin stefna, engin sýn. Það er svo hættulegt þegar verið er að reyna að byggja upp samfélag sem getur svo margt. Það er svo mikil dýnamík í íslensku samfélagi og svo margt hægt að gera, hvort sem er á sviði menntamála, heilbrigðismála, sviði rannsókna og vísinda og ég tala nú ekki um sjávarútveginn ef hann fengi að vera í friði fyrir ríkisstjórnarkrumlunni. Þess vegna er svo sárt að sjá að menn skuli ekki hafa vandað sig betur við að breyta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Ég undirstrika að ég er ekki á móti því að skipulagi Stjórnarráðsins verði breytt, engan veginn, síður en svo og það höfum við sjálfstæðismenn ekki verið.

Það er hægt að segja margt um kostnaðinn við þessa tillögu. Hann er algerlega óljós. Beini kostnaðurinn er skýr en óbeini kostnaðurinn hleypur að mati margra á mörg hundruðum milljónum kr. Ég veit ekki hversu mörg mál ríkisstjórnin hefur sent frá sér eða beitt sér fyrir, hvort sem þau tengjast stjórnarskránni, sjávarútveginum eða breyttri skipan á Stjórnarráðinu, sem kosta 100 millj. kr., 300 millj. kr., kosta milljarða. Það fé hefði betur verið notað í að byggja enn frekar upp heilbrigðisþjónustuna víða um landið og allir geta sett fram sinn óskalista þar. Þess vegna er vont að sjá, þegar fjármagnið er takmarkað, að menn glutri niður málum algerlega að ófyrirsynju.

Það sem ég hefði gjarnan viljað sjá er að formenn stjórnmálaflokkanna hefðu einfaldlega reynt að koma sér saman um hvernig þeir sæju íslenska stjórnsýslu fyrir sér, sem skilvirkasta og besta fyrir íslenskt samfélag eins og það er byggt upp í dag. Það þarf ekki að segja við mig að það hafi ekki verið hægt. Það var bara ekki látið reyna á það. Forsætisráðherra lét aldrei reyna á það í þessu máli fremur en mörgum öðrum, lét ekki reyna á að fá aðra til liðs við sig, horfði ekki til lengri tíma en eins árs og það er sárt. Þess vegna tek ég heils hugar undir með því sem fulltrúar okkar sjálfstæðismanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins segja í niðurstöðu sinni, með leyfi forseta:

„Það er mat minni hlutans að vinna þurfi tillögur um ráðuneytabreytingar mun betur og útfæra þær með ítarlegri hætti áður en þær verða afgreiddar frá Alþingi. Minni hlutinn leggst því gegn því að þessi tillaga nái fram að ganga. Skipulag Stjórnarráðsins og fyrirkomulag ráðuneyta“ — og hér er hnykkt nákvæmlega á því sem ég hef verið að segja — „er vissulega þess eðlis að rétt er og skylt að endurskoða það með reglulegu millibili. Til þess þarf hins vegar að koma betri stefnumörkun og skýrari sýn en birtist í þessari tillögu. Jafnframt er mikilvægt að leitað sé sem víðtækastrar samstöðu um fyrirkomulag þessara mála þannig að það þurfi ekki að vera meðal fyrstu verka hverrar ríkisstjórnar að breyta fyrirkomulagi ráðuneyta í landinu.“

Þetta vil ég draga fram. Það er kominn tími til að við hugsum aðeins lengra en alltaf til fjögurra ára í senn og síðan sé öllu rótað upp. Ég held að það hefði sýnt mun meiri metnað ef við á Alþingi hefðum náð samkomulagi í þessu máli. Ég trúi því að það sé enn hægt ef menn hlusta, ef þeir sem með valdataumana fara leggja sig fram og hlusta og reyna að taka í þær sáttarhendur sem svo margoft hafa verið reiddar fram í þessu máli sem og mörgum öðrum. Því miður er allt of sjaldan tekið í þær sáttarhendur.