140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka hv. þingmanni fyrir að upplýsa aftur hvernig vinnubrögðunum innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar var háttað. Ég fullyrði líka að viðvera stjórnarþingmanna, ráðherra og sérstaklega þeirra sem þetta mál snertir, annars vegar þeirra og hins vegar kannski formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, væri til bóta. Ég ætla samt að leyfa mér að segja að ég geri mér fulla grein fyrir því að þingmenn þurfa að sinna mörgum störfum og það er ekki alltaf hægt að krefjast þess að þeir séu hér alla daga. Engu að síður, ef þetta mál er þeim svona kært og svona mikilvægt hefði ég talið að það mundi greiða götu þessa máls og skýra ýmislegt ef þingmenn stjórnarliðsmegin hefðu verið í salnum, útskýrt málið og svarað spurningum sem ég og svo margir fleiri hafa sett fram með svo sannarlega réttmætum og skiljanlegum hætti.

Ef hv. þingmaður er að spyrja hvort það sé rétt að breyta íslenskri stjórnsýslu vegna ESB, að verið sé að gera það, hef ég bara enga trú á að svo sé. Ég held að menn hugsi þetta ekki einu sinni svo djúpt, ég held að menn hafi ekkert verið að spá í hvað menn eru að fara. Það sem ég sagði í minni ræðu áðan er að menn hafa enga sýn. Menn fara tvist og bast yfir það hvernig þeir geta breytt íslenskri stjórnsýslu. Ég hef ekki haldið fram, og vil ekki endilega gera það, að það sé í tengslum við aðildarumsókn Íslands að ESB.

Ég verð hins vegar að segja að ég er enn þeirrar skoðunar að það eigi að klára aðildarviðræðurnar og leyfa Íslendingum að kjósa um niðurstöðu samninga þegar þar að kemur. En ég vil líka segja að það lítur út fyrir að sú ríkisstjórn sem nú situr hafi gert meiri skaða og meira tjón fyrir aðildarumsóknarferlið en nokkurn hafði dreymt um.