140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:26]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Nei, eins sárgrætilegt og það er var ekki leitað álits hjá þingmönnum úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir hér, það er mjög líklegt og ég gef mér, sérstaklega ef þessi þingsályktunartillaga verður samþykkt og það sem hún ber með sér verður framkvæmt, að þessu verður breytt þegar nýir flokkar komast til valda. Þetta er glatað skipulag, það er bara þannig. Þetta er glatað eins og þetta er, gerir ekkert fyrir íslenska stjórnsýslu, gerir ekkert fyrir fólkið, hvað þá atvinnulífið og fyrirtækin í landinu. Það er ekki gegnsætt og það er engin sýn á bak við það.

Það er þetta sem ég er að tala um varðandi sættirnar og samráðið sem við í stjórnarandstöðunni höfum margoft reynt að sýna og lagt okkur fram í því, t.d. um fiskveiðistjórnarmálin þar sem við vorum með okkar frábæru fulltrúa sem gerðu allt til þess að ná niðurstöðu til farsældar og til lengri tíma í sáttanefndinni svokölluðu í sjávarútvegsmálum. Öllu var ýtt út af borðinu og ekkert samráð haft eftir það. Það eru þessi tækifæri sem er svo sárt að sjá fljóta hjá í þinginu og fram hjá okkur þingmönnum, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu. Við heyrum líka að þingmenn stjórnarmeirihlutans eru mjög efins. Það er ekki eins og það sé einhver hallelújakór hjá þeim. Þeir þora bara ekki fram og það verður mjög forvitnilegt að sjá hvernig þeir munu síðan greiða atkvæði um til dæmis þetta mál eftir þau stóru orð sem hafa fallið um það.

Nei, eins og ég segi var ekki leitað til okkar, þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Ég spái því að ef rammaáætlun verður afgreidd verði þetta mál tekið upp að nýju. Mér finnst það svo vont af því að við erum að missa af tækifærum fyrir komandi kynslóðir, líka til þess að allir stjórnmálaflokkar, hvort sem eru Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur eða aðrir flokkar, beri ábyrgð á því hvernig við sjáum meðal annars nýtingu á orku og náttúrunni okkar til lengri tíma litið. Við erum að missa af þessu öllu (Forseti hringir.) út af kergju í ríkisstjórninni.