140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ef menn mundu aðeins róa sig í þinginu og stjórnin átta sig á um hvað þetta mál snýst sæju menn, líka þegar maður lítur á þessa dagskrá, 35 mál, og við þokumst ekkert áfram, að það væri skynsamlegra að fresta þessu máli, ekki síst út af því að við höfum heyrt mjög alvarlegar athugasemdir frá stjórnarliðinu. Við heyrum hvað hv. þm. Jón Bjarnason segir. Hann hefur reynslu innan ríkisstjórnar og hefur starfað með því fólki sem þar stýrir. Hið sama á við um Árna Pál Árnason. Það eru mjög efnislegar og skiljanlegar röksemdir sem þeir leggja fram sem gagnrýni á þessa þingsályktunartillögu. Af hverju doka menn ekki við? Af hverju hlusta menn ekki á eigin flokksmenn? Skítt með okkur í stjórnarandstöðunni, en menn vilja ekki einu sinni hlusta á eigin flokksmenn af því að þrákelknin og kergjan er það mikil að það þarf að keyra allt svona í gegn, bara til að sýna hver hefur valdið. Það er frekar gamalt, finnst mér.

Síðan varðandi ráðuneytin, þau eru svo misjafnlega í sveit sett, það verður að segjast eins og er. Ég get ekki alveg deilt allri skoðun hv. þingmanns um að menn séu að útvista allt of miklu, það er kannski frekar að þingið þurfi að hugsa sinn gang um að setja ekki allt inn í framkvæmdarvaldið, hvort sem það er í menntamálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið eða stofnanir. Við megum ekki vera svo hrædd að geta ekki tekið afstöðu í málum. Við erum stjórnmálamenn og það er ekki betra að einhverjir embættismenn taki ákvarðanirnar. Þeir hafa ekki lýðræðislegt umboð, það höfum við. Við þurfum alltaf á fjögurra ára fresti að standa frammi fyrir kjósendum og útskýra af hverju við fórum þessa leið en ekki hina. Það þurfa aðrir innan stjórnkerfisins ekki að gera.

Af því að ég talaði um menntamálaráðuneytið vil ég segja að þar eru margir mjög sterkir einstaklingar sem eru miklir og góðir sérfræðingar á hinum ýmsu sviðum. Við eigum að nýta og skoða þau ráðuneyti (Forseti hringir.) þar sem þetta hefur gengið ágætlega, enda hefur könnun á vegum undirstofnana og forstöðumanna þess ráðuneytis komið vel út fyrir það. Það ber að virða.