140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:34]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Þegar unnið var að stjórnkerfisbreytingum 2007 komst Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi hv. þingmaður, svo að orði í ræðu sinni um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins, með leyfi forseta:

„Að mínum dómi eiga grundvallarleikreglur eins og stjórnarskráin sjálf, kosningalög í landinu, þingsköpin og að mörgu leyti einnig skipan Stjórnarráðsins að kalla á að menn leggi mikið á sig til að ná samstöðu um breytingar. Það er ekki nýtt að á það sé bent og menn hafa gegnum tíðina jafnan talið sjálfgefið að þannig ætti að standa að málum.“

Sömuleiðis sagði hv. þm. Árni Þór Sigurðsson við sömu umræðu örlítið fyrr á árinu þegar landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið voru sameinuð, með leyfi forseta:

„En til þess að endurskipulagning af þessu tagi geti tekist vel er algjör forsenda að vandað sé til undirbúnings og víðtæk pólitísk samstaða verði um þær breytingar.“

Það vekur manni nokkra undrun við umræðu um þetta mál, sem vissulega er orðin allveruleg, hvernig fyrir þessu er komið þegar hv. þingmenn sem hér var vitnað til hafa fengið tækifæri til þess að koma fram breytingum á Stjórnarráði Íslands með öðrum hætti en þeir töldu að vera æskilegt fyrir tiltölulega skömmu síðan. Í desember 2011 reyndi í fyrsta skipti verulega á þetta. Þá höfðu forgöngu um gagnrýnina stjórnarliðar nokkrir, þar á meðal hv. þm. Atli Gíslason, sem leiddi starf þingmannanefndarinnar sem margoft hefur verið vitnað til og er meðal annars seilst í álit hennar og niðurstöðu í röksemdum fyrir tillögu þeirri sem hér liggur fyrir. Þá kom fram mjög einbeitt gagnrýni af hálfu þessa þingmanns í garð hæstv. forsætisráðherra þar sem hann dró ágætlega saman og sýndi fram á að enn og aftur væri þetta verkefni þannig úr garði gert að það ylli deilum á lokadögum þings. Þetta væri mál sem lengi hefði legið fyrir og nyti ekki fulls stuðnings ríkisstjórnarinnar, jafnvel ekki almennra stjórnarþingmanna.

Það er svo einfalt mál að upplýsa það hér sem flestum er orðið ágætlega ljóst að verið er að endurtaka leikinn. Enn og aftur er dregið upp mál sem er ekkert annað en grunnur að illdeilum á meðan allt önnur mál þarfnast meiri forgangs. Ekki leiðir sparnaður af þessu eins og hefur verið sagt. Það eru allt aðrir þættir sem eru mjög óljósir. Stuðningurinn við málið er, eins og hér hefur verið rakið, er ekki frá neinum meðalmönnum. Að minnsta kosti þrír hæstv. fyrrverandi ráðherrar hafa sett fyrirvara við þetta mál. Einnig má nefna núverandi hæstv. innanríkisráðherra sem hafði allan fyrirvara á þeim breytingum á Stjórnarráðinu sem verið er að knýja fram núna. Þegar þær voru ræddar í desember 2011 lagðist hæstv. innanríkisráðherra gegn því máli af þeirri ástæðu að hann taldi það auka miðstýringu innan Stjórnarráðsins. Hann var andvígur slíkum breytingum og er það enn. Það er ekkert sem liggur fyrir í þessu máli um það annað en að verið er að þétta tökin, herða böndin og auka miðstýringu. Það versta við það er að það er algjörlega órökstutt.

Það er algjörlega fráleitt að ganga þannig til mála á lokadögum þingsins í svo mikilvægu máli sem hér er, endurskipun Stjórnarráðsins, að ætlast til þess að þingmenn afgreiði það á sama tíma og fyrir liggja mörg önnur mjög umdeild mál sem ósamið er um hvernig og hvenær eigi að koma til afgreiðslu. Það liggur eitthvað annað undir þarna sem hefur því miður ekki verið upplýst og væri æskilegt að hæstv. forsætisráðherra kæmi og ætti orðastað við þá þingmenn sem kalla hér eftir svörum. En af einhverjum ástæðum hefur stjórnarmeirihlutinn, hæstv. forsætisráðherra og einstakir ráðherrar sem bera ábyrgð á þessu máli, kosið að þegja málið í hel í stað þess að gefa þinginu heiðarlegar upplýsingar um megintilganginn í þeim breytingum sem hér er ætlunin að koma fram.

(Forseti (ÁRJ): Er hv. þingmaður að óska eftir því að hæstv. forsætisráðherra komi í salinn?)

Forseti. Ég tek undir eindregnar óskir þingmanna í þá veru sem komið hafa fram í umræðunum í dag.