140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:39]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hér fór hann yfir þá vonlausu stöðu sem þessi ríkisstjórn er í í þessu máli sem og öðrum. Þá er ég að vísa í að það er mjög tæpur meiri hluti í þinginu og fyrrverandi ráðherrar og einn núverandi hæstv. ráðherra hafa lýst yfir efasemdum í þessu máli og tveir fyrrverandi ráðherrar ætla ekki að styðja það.

Vegna forgangsröðunar ríkisstjórnarinnar er rétt að rifja það upp hér að þegar dagskrá þessa dags er skoðuð eru áætluð 35 mál á dagskránni. Og nú gengur hæstv. forsætisráðherra í salinn og það er gott.

Einungis eitt mál hefur eitthvað með heimilin í landinu að gera. Það er eitthvað sem hæstv. forsætisráðherra verður að lifa með en svo mikið liggur á þessu stjórnarráðsmáli að allt er lagt undir. Á dagskrá þingsins eru til dæmis sex mál sem varða EES-samninginn. Hér eru mál nr. 22 og 23 vegna IPA-styrkjanna svokölluðu.

Virðulegi forseti. Ég kalla eftir forgangsröðun hjá ríkisstjórninni vegna þess að hæstv. forsætisráðherra gengur hér um salinn. Það væri ágætt ef hæstv. forsætisráðherra mundi koma í andsvör og svara þeim spurningum sem komið hafa fram í umræðunni, meðal annars það sem kom frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni varðandi það að þetta mál er á dagskrá vegna kröfu Evrópusambandsins um að stækka hér stjórnsýslustofnanir til þess að hægt sé að taka við IPA-styrkjunum. Það er hárrétt hjá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni að ríkisstjórnin leggur fram mál eftir mál sem grunn að illdeilum. Þessi ríkisstjórn fer fram í ófriði en ekki friði (Forseti hringir.) og það er sorglegt að horfa upp á það.