140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:46]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það er stórt spurt, hvort maður sjái fram á einhverja framþróun í íslensku samfélagi. Já, ég er nú bjartsýnismaður að eðlisfari og tel að samfélagið muni þá þróast betur á sínum eigin forsendum ef Stjórnarráðið verður allt saman upptekið við einhverjar skrifborðsæfingar ef þingið lýsir yfir stuðningi við þetta mál.

Það er annað sem vekur hjá mér mjög margar spurningar og lýtur að kostnaðarþætti þessa máls. Eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir nefndi er áætlaður kostnaður í greinargerð með þingsályktunartillögunni einhvers staðar á bilinu 100–250 millj. kr. Þetta er svona slumpaðferð eins og maður segir. Reynslan er sú að breytingar í tengslum við stjórnkerfisbreytingar eru venjulega vanmetnar í kostnaðaráætlun. En að því gefnu að þetta væru 200 millj. kr. er agalegt að hugsa til þess að menn ætli að setja þá fjármuni til þessa verks sem er svo illa útfært á sama tíma og ríkisvaldið hefur ekki einu sinni fjárhagslega burði, alla vega eftir forgangsröðuninni að dæma, til að veita foreldrum fjölfatlaðra barna styrk til bifreiðakaupa sem er bara örlítið brot af þessari fjárhæð. Þetta er spurning um forgangsröðun. Mér þykir það illásættanleg forgangsröðun. Ég hefði talið miklu skynsamlegra að nýrrar ríkisstjórnar og nýs þings biði það verkefni að endurskipuleggja Stjórnarráðið og að við verðum þessum fjármunum, ef maður gengur út frá því að ríkisstjórnin sé með þá einhvers staðar í handraðanum, til annarra þarfari og brýnni verkefna.