140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður benti á ræðu í sinni, þó að hann notaði ekki það orðalag sem ég ætla að nota um þessa þingsályktunartillögu að þetta mál sé eins konar góðkunningi okkar, það kemur hér inn aftur og aftur. Breytingar á Stjórnarráðinu eru orðnar eins og sápuópera sem er endurtekin allt of oft í sjónvarpinu og enginn nennir að horfa á þegar búið er að endurtaka hana í fimmta eða sjötta skipti. Nú er sagt að verið sé að leggja lokahönd á einhvers konar breytingar. Það fylgdi hins vegar laumufarþegi með sem eru breytingar sem snúa að efnahags- og viðskiptamálum sem ekki var gert ráð fyrir í upphafi og hafa eðlilega orsakað mikinn titring innan stjórnarflokkanna, ekki síst innan Samfylkingar.

Það er umhugsunarefni að fara af stað með mál með þeim hætti sem hér er gert, eins og hefur verið bent á hér nokkrum sinnum. Maður veltir því fyrir sér: Hverju eiga þessar breytingar að ná fram fyrir þjóðina, fyrir Íslendinga? Hvert er markmiðið? Það er ljóst að stjórnarmegin er að minnsta kosti eitt markmið, að gera stjórnkerfið þannig að færri þurfi að koma að málum, þ.e. að semja þarf við færri ráðherra um mál til að koma þeim í gegnum ríkisstjórn og þess háttar.

Ég velti líka fyrir mér hvort þetta sé dæmi um góða stjórnsýslu og öll þau fögru fyrirheit sem farið var af stað með í upphafi þessa kjörtímabils, að þetta yrði ríkisstjórn samráðs og sátta og nú yrðu ný vinnubrögð og allt upp á borðinu og guð má vita hve mörg skrautleg orð voru notuð sem hafa svo ekki haft neina merkingu. Er þingmaðurinn sammála mér að núverandi ríkisstjórn hafi stundað allt annað en góð vinnubrögð og gott samráð? Síðan langar mig að spyrja þingmanninn um álit hans á því hvað reki í raun á eftir þessum breytingum.