140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:54]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Sá sem hér stendur er tilbúinn til þess að leggja hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni lið í því að greiða fyrir að brýnni mál komist á dagskrá þingsins. Það er einboðið að leggja mönnum lið í því.

Ég hef hins vegar upplýsingar um að það sé ekki mikill samningsvilji hjá hæstv. forsætisráðherra til að ganga þannig frá málum að okkur verði eitthvað úr verki. Frekar taka menn slaginn og deilurnar en að reyna að semja sig niður að einhverri lausn. Vissulega þarf tvo til samninga og ég tel að stjórnarandstaðan sé búin að leggja fram ákveðnar hugmyndir í því sem ég hvet hv. stjórnarliða til að fallast á.

Ég vil nefna það hér, af því að hv. þingmaður ræddi hvort ekki væri æskilegt að taka hér einhver tiltekin mál fyrir, að þó að ekki væri annað en mál nr. 14 sem snýr að þeirri áherslu sem við tókum fyrir fyrr í dag í sérstakri umræðu, að auka tök Alþingis á hagstjórninni og efla okkar starf í því — mál nr. 14 er lokafjárlög fyrir árið 2010 sem lauk fyrir tæpu einu og hálfu ári — þó að ekki væri annað en að einhenda sér í það verk að afgreiða fjárlögin fyrir árið 2010 væri töluvert mikið unnið.