140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:56]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Það er ljóst að málið er umdeilt og þess vegna er enn verið að ræða það.

Sagt er að markmiðið með þessum breytingum sé að gera Stjórnarráðið öflugra og skilvirkara og til að skerpa betur og stýra verkaskiptingu á milli ráðuneyta. Ég get fallist á að það sé þarft markmið. Ég get fallist á að fjárhagslegt hagræði með sameiningu ráðuneyta sé af hinu góða og ég get líka fallist á að stærri og öflugri einingar geti leitt til hagræðingar og nýtt betur þá fjármuni sem fyrir hendi eru. Ég get enn fremur fallist á að meira svigrúm yrði til stefnumarkandi vinnu og að hugsanlega væri hægt að samþætta ýmislegt fleira. Ég get hins vegar ekki séð, virðulegur forseti, hvernig yfirsýn yfir málaflokk verði betri með stærri einingum, faglegur ávinningur meiri og þjónusta skilvirkari. Ég held að menn þurfi aðeins að velta því fyrir sér með hvaða hætti þeir telji að þeir nálgist það verkefni.

Hins vegar er hér einn þáttur sem svo auðvelt væri fara í án þess að ræða þær breytingar á ráðuneytum sem hér liggja fyrir og það er að sameina stoðþjónustu allra ráðuneyta innan Stjórnarráðsins. Það er ekkert sem mælir gegn því, virðulegur forseti, að hægt sé að fara í frekari samvinnu og samrekstur á stoðþjónustu allra ráðuneyta, svo sem á sviði rekstrar, tölvu- og öryggismála, skjalamála, húsnæðis- og byggingarmála og mannauðsmála. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að hægt sé að fara í þetta verkefni og það er algjörlega óháð því að farið sé samhliða í grundvallarbreytingar á Stjórnarráðinu.

Þetta er kannski það markmið sem ríkisstjórnin ætti að beita sér fyrir og þá líka fyrir öflugri og skilvirkari stjórnsýslu, meiri formfestu innan stjórnsýslunnar, eins og oft hefur verið komið að í þessari umræðu að sé nauðsynlegt. Ég sagði í fyrri ræðu minni að þessi þingsályktunartillaga, eins og hún liggur hér fyrir, sé hvorki í takt við skýrslu þingmannanefndarinnar né í takt við rannsóknarskýrslu Alþingis, þó að ekki þurfi endilega alltaf að vitna í og miða við þær skýrslur en stjórnarliðum hefur hins vegar verið tíðrætt um þær.

Mig langar aðeins að ræða hér, virðulegur forseti, að árið 2009 stofnað nýtt efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Sitt sýndist hverjum um það. Í ársbyrjun 2012 finnst sömu ríkisstjórn og þá tilhlýðilegt að breyta enn skipan efnahagsmála. Árið 2009 voru efnahagsmálin færð úr forsætisráðuneytinu yfir í þetta nýja ráðuneyti og Seðlabankinn samhliða. Nú á aftur að fara í endurskipulagningu efnahagsmála og færa þau undir fjármálaráðuneytið. Ég hefði talið skynsamlegra, frú forseti — og ég leyfi mér að hafa skoðun á þeim breytingum sem hér er verið að leggja til í færslu efnahagsmála enn einu sinni — fyrir land og þjóð, fyrir stjórnmálin í heild, að við ræddum skipan efnahagsmála til framtíðar og fólk velti fyrir sér í sameiningu, stjórn og stjórnarandstaða, hvernig við teldum því best fyrir komið því að skipan efnahagsmála í íslensku samfélagi er grunnur að flestöllu öðru sem við síðan vinnum eftir.

Það hlýtur að skjóta skökku við að enn einu sinni á kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar, á þeim fjórum árum sem ríkisstjórnin er við völd, þurfi að færa til yfirstjórn efnahagsmála. Ég hefði kosið að menn hefðu sæst á að skoða skipan efnahagsmála til framtíðar og rætt það í þaula hvernig við teldum skynsamlegast að koma að þeim málum.

Ég dreg líka í efa og velti því fyrir mér hvernig sjálfstæði Seðlabanka Íslands, sem nú mun falla undir fjármála- og efnahagsráðuneyti ef þessar breytingar verða að veruleika, gagnvart því að veita aðhald í ríkisfjármálum eigi að vera háttað þegar sami banki heyrir stjórnsýslulega undir fjármála- og efnahagsráðuneyti. Ég sé það ekki í fljótu bragði og vara við þeirri hættu að vegið sé að sjálfstæði Seðlabankans með slíkri skipan mála. Menn hljóta að velta því fyrir sér hvort og hvernig það fari saman að heyra stjórnsýslulega undir sérstakt ráðuneyti og eiga jafnframt að veita aðhald í ríkisfjármálum.

Virðulegur forseti. Svo er annað sem mætti kannski ræða hér líka og tengist þessari tilfærslu og þessum breytingum á Stjórnarráðinu að allt kostar þetta fjármuni og fram til þessa hafa þeir frekar verið af skornum skammti hjá okkur og þá hljóta menn að velta fyrir sér jafnt forgangsröðun verkefna og forgangsröðun fjármuna. Þær breytingar sem hér eru lagðar til og breytingar sem hafa verið gerðar á ráðuneytum í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur munu, verði þetta verkefni að veruleika, fara hátt í hálfan milljarð króna á sama tíma og verið er að samþykkja í allsherjar- og menntamálanefnd að framlengja gildistöku ákvæðis um efnisgjald á nemendur í framhaldsskólum af því að þar vantar til að hægt sé að framfylgja lögum um framhaldsskóla frá 2008 í kringum 200 milljónir til að hægt sé að létta þessum skuldbindingum af nemendum í framhaldsskólum.

Ég segi þetta hér og nú, virðulegur forseti, af því að við erum alltaf að ræða forgangsröðun fjármuna. Við erum að draga úr ýmsum velferðarmálum, við erum að draga úr rekstri og þjónustu á heilbrigðisstofnunum samhliða því að vera tilbúin að leggja til fjármuni í verkefni eins og þetta, breytingu á Stjórnarráðinu, sem ég tel ekki forgangsverkefni, hvorki hvað varðar flutning í nýtt húsnæði né til að samþætta og færa á milli ráðuneyta og gera verkefnin skýrari og skilmerkilegri. Ég tel þetta einfaldlega ranga forgangsröðun verkefna. Ég hefði kosið að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem kennir sig við norræna velferð, hefði frekar lagt þá fjármuni sem ríkisstjórnin er tilbúin að leggja í þetta verkefni og hefur verið tilbúin að leggja í sameiningu ráðuneyta og stofnana, í önnur og betri verkefni sem koma fólkinu í landinu til góða á þeim tímum þegar við búum við skert fjármagn. Það er mín trú að breyting á ráðuneytum eins og verið er að gera sé ekki slíkt forgangsverkefni að það komi fólkinu í landinu sérstaklega til góða. Ég tala nú ekki um, virðulegur forseti, á meðan menn hafa ekki getað sest niður og rætt skipan efnahagsmála sem ákveðinn grunn í öllu því sem fram á að fara í Stjórnarráðinu og séð einhverja sýn til framtíðar um hvernig við viljum skipa efnahagsmálum, hvaða sess við viljum að efnahagsmálin hafi innan ráðuneyta eða ráðuneytis og hvernig við viljum að stefnan sé mótuð til framtíðar um efnahagsmál þjóðarinnar.