140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[19:06]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir ræðuna.

Nú er þetta mál búið að vera talsvert til umfjöllunar hér og menn eru búnir að fara, eins og kom fram í ræðu þingmannsins, bæði yfir vinnubrögðin og hvernig staðið hefur verið að þessu. Menn hafa líka farið yfir það hvernig breyta á fjármálaeftirlitsmarkaðnum og færa hann á milli ráðuneyta þannig að óljóst sé hvar stofnanir lendi. Sagt er að verið sé að gera þetta í anda norrænnar fyrirmyndar, sem hv. þingmaður hefur meðal annars sýnt fram á í fyrri ræðu sinni að er kolrangt. Fjármálaeftirlitið heyrir ekki til slíkra ráðuneyta sem hér eru lögð til.

Það var talað um að það væri veiking á hvernig farið yrði með grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveg og landbúnað, þegar hugmyndin um að stofna atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti kom fram. Sumir hafa líka haft það á orði að það verði býsna stórt ráðuneyti og kannski erfitt fyrir einn mann að sinna því, ég veit ekki hvort hv. þingmaður vill kommenta um það.

Núna á að setja eftirlit með banka- og fjármálageiranum inn í sama ráðuneyti og fer með grunnatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveg, landbúnað og svo iðnaðinn með allri sinni orku. Þetta er gríðarlegt umfang og allt annars eðlis, að manni finnst, þessi fjármálaeftirlitsstarfsemi.

Finnst þingmanninum líklegt (Forseti hringir.) að einn ráðherra eigi auðvelt með að hafa yfirsýn? Finnst þingmanninum líklegt að þetta muni styrkja grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar og stjórnsýsluna með þeim?