140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[19:13]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hefði haldið að miðað við það sem við stóðum frammi fyrir við hrun bankanna og þær aðgerðir sem samfélagið þurfti að grípa til á mörgum sviðum vegna þess hefði ríkisstjórnin átt að horfa til þess að styrkja enn frekar það ráðuneyti sem hefur með bankamál og fjármálafyrirtæki að gera, sem og fjármálaeftirlit til að fara yfir allar grunnlagasetningar sem þar að koma og til að tryggja enn frekar eftirlit á ólíkum stigum og með ólíkum þáttum, í stað þess að fara að hrófla við þessum geira með þeim hætti að setja hann undir stórt og mikið atvinnuvegaráðuneyti.

Af því að hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson spurði um ábyrgð og hverra ábyrgðin væri vil ég minna á í þessari umræðu að hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra ræddi um fjármála- og efnahagsráðuneyti sem ákveðið móðurráðuneyti. Samhliða því er þá komið nýtt orð yfir einn ráðherra sem verður móðurráðherra og væntanlega verða undirráðherrar sem eru þá systra- og bræðraráðherrar eða hvernig við lítum svo sem á það. Þá hlýtur móðurráðherrann að bera ábyrgð á undirmönnum sínum eða aðstoðarráðherrum á sama hátt og forstöðumenn stofnana bera ábyrgð á samstarfsfólki sínu, hvort heldur það eru sviðsstjórar, framkvæmdastjórar eða aðrir undirmenn.