140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[19:18]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefnir hér sé rétt, það sé einmitt þannig sem kaupin hafa gerst á eyrinni. Það er ljóst að ríkisstjórnin hefur nauman meiri hluta á Alþingi. Tveir fyrrverandi ráðherrar hafa lýst sig andsnúna þingsályktunartillögunni og þessum breytingum. Hæstv. forsætisráðherra hefur líka sagt að hún telji að í röðum þingmanna séu aðrir sem séu tilbúnir til að styðja þessar breytingar.

Ég tel, eftir því sem mér finnst ég geta lesið í það sem hér hefur verið sagt og gert, að hér séu á ferðinni ákveðin kaup á milli hæstv. forsætisráðherra og Hreyfingarinnar um að Hreyfingin styðji breytingar hæstv. forsætisráðherra á Stjórnarráðinu og þess vegna sé verið að fara af stað með breytingar á hugsanlegum spurningum vegna þjóðaratkvæðagreiðslu og leggja drög eða tillögur stjórnlagaráðs fyrir þjóðina í haust, samhliða því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur rætt það að kalla til sérfræðinga til að fara yfir tillögur stjórnlagaráðs og skoða hvernig þær falla að núgildandi stjórnarskrá og núgildandi lögum öðrum.

Ég er sömu skoðunar og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson og tek undir með honum. Hann sagðist ekki vita það fyrir víst en hugboð hans væri að svona væri þetta og þannig hefðu kaupin gerst á eyrinni. Og það er slæmt á þeim tímum sem við lifum nú, vegna þess að eftir kosningarnar 2009 ætluðum við að koma á breyttum vinnubrögðum, annars konar vinnubrögðum en hafa kannski áður tíðkast, en þau hafa lítið breyst.