140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[19:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að vinnubrögðin hafi versnað, það er einfaldlega þannig. Það er að sjálfsögðu í ósamræmi við allar þær yfirlýsingar og þau fögru orð sem flugu hér í upphafi þessa kjörtímabils.

Hv. þingmaður velti áðan fyrir sér og ræddi breytingarnar varðandi fjármálin og efnahagsmálin. Ég er sammála því að það er mjög sérstakt að fara þessa leið og setja hana svona fram.

Það voru lagðar fram tillögur um ákveðnar breytingar, t.d. voru uppi hugmyndir um að sameina Seðlabanka og Fjármálaeftirlit o.s.frv. Hér töluðu erlendir sérfræðingar fyrir því að fara ákveðna leið með þessar stofnanir. Einn íslenskur sérfræðingur eða fræðimaður, fyrrum stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins og sem var að mig minnir stjórnarformaður þegar allt fór hér á hvolf, lagði hins vegar til þá leið sem á að fara núna, ef ég þekki málin rétt.

Ég vildi líka taka undir það sem hv. þingmaður sagði, að það væri að sjálfsögðu viturlegast að setjast niður og skoða hvort menn geti náð saman um framtíðarskipulag efnahagsmála innan stjórnkerfisins. Það er vitanlega óásættanlegt að hræra í því á tveggja eða þriggja ára fresti og færa fram og til baka.

Mér þóttu tvær leiðir færar. Ef menn vildu styrkja efnahagsmálin þá var hægt að fara þá leið að styrkja efnahagsráðuneytið, veita því meira svigrúm til að ráða til sín starfsfólk og fá því meiri heimildir, eða lyfta efnahagsmálunum enn hærra og fara með þau aftur inn í forsætisráðuneytið og efla mjög sterklega þá efnahagsskrifstofu sem þar ætti að vera. Besti kosturinn að mínu viti, og það er bara mín persónulega skoðun, (Forseti hringir.) hefði verið að efla efnahags- og viðskiptaráðuneytið.