140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er eitt atriði sem veldur mér sífellt meiri áhyggjum varðandi þetta mál eftir því sem ég skoða það betur og það lýtur að óbeinum áhrifum þess að ráðast í þessar breytingar nú. Töluvert hefur verið fjallað hér um hversu skynsamlegt eða öllu heldur óskynsamlegt sé að ráðast í þessar breytingar út frá því að ópraktískt sé að sameina tiltekin ráðuneyti og ýmsa galla á því. En það sem hefur kannski ekki verið rætt nógu mikið, að minnsta kosti vantar algjörlega sýn hæstv. forsætisráðherra á þetta, eru þau óbeinu áhrif sem óhjákvæmilega leiða af því að ráðast í svona allsherjaruppstokkun á ráðuneytunum svo skömmu fyrir kosningar.

Hér er verið að ræða það að ráðast í allsherjaruppstokkun sem muni einungis gilda í sex mánuði af því að þetta tekur ekki gildi fyrr en í september, jafnvel þó að þetta yrði samþykkt hér og nú, og svo er nánast ljóst að næsta ríkisstjórn mun gera breytingar, mun laga þær tilfæringar sem nú eru áformaðar, enda eru þær mjög illa rökstuddar og á þeim eru ýmsir gallar sem hafa verið raktir hér. Það stendur því til að setja hér allt í uppnám til þess eins að framkvæma breytingar sem gilda í sex mánuði. Hver er tilgangurinn með slíku? Hvernig geta menn leyft sér að leggja í þann kostnað og allt það umstang til að breyta ráðuneytunum eftir höfði hæstv. forsætisráðherra í sex mánuði?

Afleiðingarnar eru ýmsar og þær hafa margar verið raktar hér en ég ætla að einbeita mér í þessari ræðu að óbeinu áhrifunum sem ég tel vera mikið áhyggjuefni og miklu meira áhyggjuefni en ætla mætti af umræðunni. Þegar ráðist er í svona umfangsmiklar breytingar skapar það óvissu hjá öllum starfsmönnum ráðuneytanna og ekki bara starfsmönnum ráðuneytanna heldur líka starfsmönnum þeirra fjölmörgu ríkisstofnana sem undir ráðuneytin heyra. Við erum að tala um þúsundir starfsmanna í ráðuneytum og hjá stofnunum sem eru í raun settir í mikla óvissu og uppnám. Það eitt og sér getur verið mjög dýrt ef losarabragur kemst á starfsemi þeirra stofnana og ráðuneyta vegna óvissunnar. Svo bætist það að sjálfsögðu við að þeir starfsmenn munu þurfa að verja stórum hlutum tíma síns í að framkvæma breytingarnar. Annars vegar er það þessi óstöðugleiki og óvissa, sem ein og sér er skaðleg, og hins vegar sá tími sem fer í að innleiða breytingarnar.

Á meðan menn standa í slíku hafa þeir takmarkaðan tíma til að sinna öðru. Við þær aðstæður sem nú eru ríkjandi í þjóðfélaginu, þar sem við þurfum á því að halda að ráðuneytin öll og ríkisstofnanirnar vinni að því af fullum krafti að koma atvinnulífinu af stað, byggja upp atvinnu í landinu og koma skuldsettum heimilum til aðstoðar, er það mjög dýrt þegar starfsfólk er tekið úr þeirri brýnu vinnu og sett í einhvers konar kerfisbreytingar eða sett í óvissu og uppnám vegna þess að menn vita ekki hvernig starfseminni verður háttað eftir nokkra mánuði. Það felur í sér óbeinan kostnað en samt mjög raunverulegan kostnað, kostnað fyrir samfélagið upp á milljarða króna að öllum líkindum. Ef ráðuneytin geta ekki starfað sem skyldi við þær aðstæður þegar svo brýnt er að þau láti til sín taka við að bæta úr er mjög dýrt að þar komi nokkurra mánaða, jafnvel eins árs gloppa þar sem umræddar stofnanir geta ekki starfað sem skyldi.

Við þurfum að gera okkur grein fyrir því eða við hljótum að ætla það að minnsta kosti að fólk sé ekki í vinnu hjá ráðuneytum eða hjá stofnunum nema vegna þess að ríkið telji hagkvæmt að hafa allt þetta fólk í vinnu. Annars væri ekki skynsamlegt að halda úti öllum þeim störfum sem haldið er úti nú nema menn gangi út frá því að þau störf skapi verðmæti fyrir samfélagið og séu nauðsynleg. Ef við drögum þá ályktun og gefum okkur að það sé eðlilegur fjöldi starfsfólks í ráðuneytum og stofnunum þá leiðir af því sú óhjákvæmilega niðurstaða að ef því fólki er ekki gert kleift að vinna vinnuna sína felur það í sér kostnað fyrir samfélagið, annars þyrfti þetta fólk ekki að vera í þeirri vinnu sem það þiggur laun fyrir.

Ég efast ekki um að langflestir starfsmenn ráðuneyta og undirstofnana þeirra mundu svo gjarnan vilja láta til sín taka við að leysa þau vandamál sem samfélagið stendur frammi fyrir. Þeir sem hafa sérþekkingu á sínu sviði þekkja líka tækifærin og tækifærin sem Íslendingar standa frammi fyrir eru óteljandi og gríðarlega stór. Það fólk sem vinnur til dæmis í sjávarútvegsráðuneytinu og þekkir til sjávarútvegsins veit hvers lags tækifæri leynast þar. Það sama á við um þá sem vinna í iðnaðarráðuneytinu, Íslandsstofu, hvaða stofnun sem við nefnum, eða fólk sem vinnur til dæmis hjá umboðsmanni skuldara. Það fólk gerir sér grein fyrir hver staðan er og vill beita sér á hverjum degi til þess að láta gott af sér leiða. Það verður að gera þessu fólki kleift að vinna vinnuna sína og einbeita sér að þessum brýnu verkefnum, hvort sem það er að bjarga einhverju sem farið hefur úrskeiðis, leysa einhver vandamál eða þá að nýta tækifærin eða hjálpa öðrum að nýta tækifærin. Það er eitt af hlutverkum ráðuneyta að gera fólki og fyrirtækjum kleift að nýta þau miklu tækifæri sem eru til staðar í samfélagi okkar.

Þegar komið er í veg fyrir það með því að láta allt snúast um einhverjar kerfisbreytingar sem hefur ekki einu sinni verið útskýrt hvers vegna er ráðist í, það er leyndardómur enn þá, þá er það mjög dýrt. Það er í rauninni grátlegt að horfa upp á það að menn ætli að leggja bæði í beinan og óbeinan kostnað við svona tilgangslausa framkvæmd á sama tíma og verið er að skera niður enn meira í heilbrigðisþjónustunni. Menn ætla að kasta peningum út um gluggann í breytingar sem ekki hafa verið rökstuddar og ganga beinlínis gegn stjórnarsáttmálanum að miklu leyti, ganga algjörlega þvert á fyrri yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra, en menn ætla samt að setja það í forgang.

Þetta er því miður enn eitt dæmið um það sem við ræddum hér í morgun, sem kom til umræðu í fyrirspurnatíma, óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra, að ríkisstjórnin er með áform um fækkun starfa. Auðvitað lýsir hún því ekki yfir opinberlega, en það hefur verið reiknað út af öllum sem hafa farið yfir stefnu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum og í orkunýtingarmálum og náttúruvernd að þau áform sem uppi eru núna varðandi þessa málaflokka muni kosta samfélagið þúsundir starfa og valda gríðarlegu efnahagslegu tjóni. Svo bætist þetta við að gera á ráðuneytin og undirstofnanir þeirra óstarfhæf og valda samfélaginu enn meiri kostnaði og enn meira tjóni. Við þær erfiðu aðstæður sem við Íslendingar höfum gengið í gegnum efnahagslega á undanförnum árum sitjum við uppi með ríkisstjórn sem leysir ekki vandann, lágmarkar ekki óvissuna eða skapar tækifæri, heldur rekur stefnu sem beinlínis veldur tjóni og skaða. Því er svo komið núna að ef menn reikna dæmið lauslega er kostnaðurinn af ríkisstjórninni orðinn meiri að öllum líkindum en beinn kostnaður af efnahagshruninu.

Auðvitað var það gríðarlegt áfall fyrir landið og mikill kostnaður. En ef menn hefðu nýtt þau tækifæri sem voru til staðar til að bregðast við hruninu, sérstaklega varðandi skuldamál heimilanna, og nýtt þau tækifæri sem voru til staðar (Forseti hringir.) til þess að skapa atvinnu í staðinn fyrir að fækka störfum hefðum við sloppið svo (Forseti hringir.) miklu betur en raun hefur orðið.