140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst að samráðinu. Því er mjög auðsvarað, það var ekki neitt, ekki neitt. (Gripið fram í: Kemur á óvart.) Þrátt fyrir allar hástemmdu yfirlýsingarnar, ekki hvað síst frá hæstv. efnahags- og sitthvað-fleira-ráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, sem á meðan hann var í stjórnarandstöðu varð tíðrætt um mikilvægi þess að breytingar á Stjórnarráðinu væru unnar í samvinnu allra flokka. Það hafa svo sem margir fleiri bent á þá augljósu staðreynd að Stjórnarráðið þarf að geta starfað áfram þó að breyting verði á því hvaða flokkar eru í ríkisstjórn hverju sinni, þá á það ekki að valda sérstöku raski og setja allt í uppnám í Stjórnarráðinu.

Hv. þm. Árni Páll Árnason, fyrrverandi ráðherra, hefur til að mynda bent á mikilvægi þessa og hyggst ekki styðja þessa tillögu meðal annars á þeim forsendum að það sé algjörlega óásættanlegt að ríkisstjórn sé að breyta skipulagi Stjórnarráðsins með þessum hætti án samráðs, og það rétt fyrir kosningar.

Hv. þingmaður spurði um hvað mér fyndist um að Fjármálaeftirlitið færi undir atvinnuvegaráðuneytið. Ég er sammála mati Kaarlos Jännäris og félaga hvað það varðar og ég botna raunar ekkert í mörgu í þeim tillögum hvað varðar skiptingu málaflokka niður á ráðuneytin. Stundum hvarflar að manni að þetta hafi verið unnið á sama hátt og þegar dregið er í riðla í íþróttakeppni, málaflokkarnir hafi verið settir í skál og svo hafi verið dregið og því raðað í aðrar skálar og þannig komið í ljós hvað málaflokkar ættu að vera í hvaða ráðuneyti, því að þetta virðist allt vera mjög handahófskennt. Nema hvað varðar sameiningu efnahagsráðuneytis (Forseti hringir.) og fjármálaráðuneytis, það vera virðist vera mikill og einbeittur vilji þar (Forseti hringir.) þvert gegn því sem hæstv. forsætisráðherra hélt fram fyrir nokkrum mánuðum.