140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:50]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Hann kom inn á hluti sem skipta miklu máli í öllu vinnulagi á Alþingi. Ég get reyndar bætt því við, af því að ég sit í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að það var ekki einungis svo að það ætti ekki að fá neina gesti fyrir nefndina heldur var einnig hafnað þeirri augljósu og eðlilegu bón að þessi tillaga fengi meðferð í öðrum nefndum þingsins sem varðar um þá mikilvægu málaflokka sem þarna er verið að véla um.

Stofnun heils atvinnuvegaráðuneytis, að menn geti ekki svarað því í umræðunni hvar Hafrannsóknastofnun verði vistuð er alveg makalaust. Einnig ef menn ætla að láta það yfir sig ganga að ekki eigi að svara því hvaða ráðherra og hvaða ráðuneyti eigi að fara með þann mikilvæga málaflokk, svo ekki sé talað um þann hringlanda sem er viðhafður í efnahagsmálunum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins nánar, hann er þingreyndur maður þegar kemur að setu í efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd, út í hvaða skoðanir hann hafi á þeirri stefnumörkun sem dúkkaði upp í janúar um að efnahagsmál skyldi færa í heilu lagi úr efnahagsráðuneyti, sem yrði lagt niður, yfir í fjármálaráðuneytið þó þannig að Fjármálaeftirlitið færi í litla „skógarferð“ yfir í atvinnuvegaráðuneytið. Hvaða áhrif telur virðulegur þingmaður að þetta hafi á ásýnd og stjórn efnahagsmála á þeim viðsjárverðu tímum sem við nú lifum? Hefur hv. þingmaður heyrt einhver rök fyrir slíkum aðskilnaði á stjórn fjármálamarkaðar að Fjármálaeftirlitið sjálft eigi án allra raka og rökstuðnings að vera fært yfir í atvinnuvegaráðuneyti?