140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:55]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður nefndi samþykkt Alþingis, sem gjarnan hefur verið kölluð 63:0, um breytingar á vinnubrögðum í Alþingi og stjórnsýslunni. Það er hjákátlegt að við séum að ræða það í tengslum við þetta mál og þessar vanhugsuðu breytingar á Stjórnarráðinu.

Mig langar að spyrja þingmanninn að því hvort hann telji Alþingi ekki hafa nokkurt eftirlitshlutverk þegar kemur að skipan mála í Stjórnarráðinu eða hvort það sé bara einkamál þess sem ræður ríkjum í Stjórnarráðinu hverju sinni hvernig haldið er utan um grundvallarmál í landinu. Ég er þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt að Alþingi hafi á þessu skoðun.

Þegar við fengum það í gegn síðastliðið haust að þessi tillaga skyldi lögð fram, hæstv. forsætisráðherra vildi auðvitað losna við þingið úr menginu, þá var það ekki minn skilningur að í því fælist að við gæfum frá okkur alla þinglega meðferð á málinu, hreint ekki. Þvert á móti var hugsunin að við hefðum tækifæri til að fara í gegnum málið í eðlilegri meðferð með því að senda það til umsagnar og ræða það í þaula eins og við erum vön að gera við einstök þingmál. En hér hefur komið í ljós í umræðunni og síðast hjá hæstv. forsætisráðherra í dag að hún líti svo á að meiningin hafi verið að leggja fram þingsályktunartillögu og síðan átti bara að taka hana til afgreiðslu og samþykktar.

Við skulum hafa það í huga og það hefur líka margoft komið fram í þessari umræðu að við vitum ekkert hvaða ríkisstjórnarmeirihluti stendur að þessu máli, það liggur ekki fyrir. Það er a.m.k. vitað að tveir fyrrverandi ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru með fyrirvara við málið og hafa reyndar lagst gegn því í stórum atriðum. Það liggur ekki fyrir hvort ríkisstjórnin hafi meiri hluta, en engu að síður hagar hún sér eins og meirihlutastjórn og sú sem valdið hefur. Raunin er sú að hún þarf að athuga í atkvæðagreiðslu, sem við í þinginu eigum að kalla fram, hvort hún hafi raunverulega meiri hluta í einstökum málum.

Er þetta það sem við ætluðum að innleiða eftir þær miklu efnahagsþrengingar sem við lentum í? (Forseti hringir.) Er þetta sá lærdómur sem menn ætluðu sér að draga af vandræðunum sem við komum okkur í?