140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:01]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það hefði verið gagnlegt fyrir þessa umræðu og málið í heild sinni að fá umsagnir utan úr samfélaginu þar sem spurningum sem þessum hefði verið svarað, til að mynda varðandi það sem hv. þingmaður benti réttilega á, sameiningu ráðuneyta og flutning auðlindamálanna þarna inn og fyrir heildarbreytingar á málinu. Við þurfum að fá álit og ábendingar úr samfélaginu þegar svona stórar ákvarðanir eru teknar. Svo ég svari þessu er ég sammála hv. þingmanni um að þessir hagsmunir fara ekki saman. Við erum þarna að tala um ólíka hagsmuni og að sjálfsögðu er efnahagslíf okkar að mörgu leyti frábrugðið efnahagslífi annarra þjóða. Ég geld því varhuga við málinu án þess að ég ætli að fella endanlegan úrskurð um það, enda er það svo vanreifað.

Málið er svo vanreifað að við höfum til að mynda ekki fengið álit sérfróðra aðila um þau álitamál sem hv. þingmaður hefur komið fram með í þessari umræðu. En af því að hv. þingmaður kom upp í andsvar og ég átti þess ekki kost, því miður, að fara í andsvar við hv. þingmann út af þessu máli fyrr í umræðunni langar mig að spyrja hann að því hvort hann telji það Alþingi til sóma að standa svona að verki að málið fái ekki að fara til umsagnar í samfélaginu, hafi ekki fengið efnislega meðferð frá öðrum nefndum þingsins og það eigi að fara með þetta mál með þvílíkum flýtihraða í gegnum þingið (Forseti hringir.) þegar það varðar sjálfa verkaskiptingu innan Stjórnarráðs Íslands?