140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:08]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Nú er ræðutíminn orðinn nokkuð stuttur þannig að maður þarf að velja sér umræðuefni. Fyrr í dag fór ég aðeins yfir hverju mér fyndist vera ósvarað í þessu máli og var kominn að punkti sem snerist um hugmyndir um að skipta upp ráðuneytum í annars vegar atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti og hins vegar auðlinda- og umhverfisráðuneyti. Sagt hefur verið að þetta sé gert að norrænni fyrirmynd. Ég hef farið ítrekað yfir það og það hafa reyndar fleiri þingmenn gert og mótmælt því harðlega.

Frú forseti. Það er svolítið sláandi að ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, hefur frá upphafi kennt sig við norræna velferð og þykir mörgum það sérkennilegur samanburður. Jafnframt hafa stjórnarliðar talað um það í mjög mörgum málum hvernig norrænir frændur okkar haga stjórnsýslu sinni. Því er mjög áhugavert að skoða bara þetta eina mál. Ég fékk símhringingu í gær þar sem spurt var: Eru þau vinnubrögð komin til að vera sem sjást á þingi í dag og við höfum séð á liðnum missirum? Er hægt að breyta því? Ég taldi að mjög auðvelt væri að breyta því. Viðmælandi minn var nokkuð undrandi yfir þessu. Ég sagði að ríkjandi stjórnvöld á hverjum tíma, nú hæstv. ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, þurfi einfaldlega að átta sig á því að þegar menn hafa minnsta mögulega meiri hluta, og jafnvel eins og í þessu máli ekki einu sinni meiri hluta í eigin röðum, fara menn ekki fram með grundvallarbreytingar á einu eða neinu. Við getum nefnt fiskveiðistjórnarfrumvarpið, við getum nefnt rammaáætlun, við getum tekið ansi mörg stórmál sem komið hafa inn og jafnvel smámál, frú forseti, þar sem ríkisstjórnin reynir að beita hótunum og þvingar í gegnum þingið sem eins konar afgreiðslustofnun öllum málum í bullandi ágreiningi og jafnvel gegn stórum meiri hluta þjóðarinnar.

Það er einmitt ekki raunin með hina norrænu stjórnsýslu. Við höfum séð það í ágætum sjónvarpsþáttum á sunnudagskvöldum á RÚV, Höllinni, eða Borgen á dönsku, þar einmitt er sýnt fram á hvernig stjórnmálin á Norðurlöndum virka. Þar eru oft minnihlutastjórnir og jafnvel þótt þar séu meirihlutastjórnir reyna menn að leita samkomulags við sem flesta, helst 70–80% af þingmönnum viðkomandi þings, við sem flesta þingflokka, áður en þeir fara fram með mál þannig að meiri sátt ríki í samfélaginu um þær breytingar sem gerðar eru.

Auðvitað þýðir það að hæstv. forsætisráðherra, hver sem hann er og í hvaða landi Norðurlandanna sem hann er, fær ekki allt sem hann vill, það sjáum við vel í þessum margumræddu sjónvarpsþáttum, sem er lýsing á því ástandi sem ríkir á Norðurlöndum. Þar er einmitt farin sú leið að menn reyna að ná fram sátt og samlyndi og hafa samráð frá fyrsta degi og þegar þeir koma síðan í lokaafgreiðsluna og afgreiða málin kemur oft og tíðum upp ágreiningur um það hvernig klára eigi málin. Þeir sem eru á móti málinu reyna auðvitað að sveigja málið þá lengra í þá átt sem þeir vilja fara og þá lengra frá sjónarmiðum þeirra sem keyra vilja málið í gegn. Þá þurfa menn aftur að setjast niður og reyna að semja. Hér er ríkisstjórn og hæstv. forsætisráðherra sem reynir að þvinga öll mál í gegn og það hefur ekkert með norrænar fyrirmyndir að gera, hvorki norræna velferð, norræna stjórnsýslu né heldur norræna uppbyggingu á Stjórnarráðinu, eins og kemur ágætlega fram í skýrslu samstarfshópsins, sem vann rökin eftir á, vel að merkja, fyrir því að fara í þær framkvæmdir og breytingar sem hér eru lagðar til og sem við höfum lagt mikla áherslu á að menn hætti við. Við teljum að það sé allt of seint verið að breyta þessu, það séu ekki nægileg rök og að málið sé ekki nægilega undirbyggt. (Forseti hringir.) Frú forseti. Það er almenn andstaða við að fara þessa leið og þá þurfa ríkjandi stjórnvöld, sérstaklega þau sem eru minnihlutastjórn, (Forseti hringir.) að leita til fleiri til að fá stuðning við mál sitt en ekki reyna að þvinga það í gegn með hávaða og látum.