140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:16]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé rétt hjá hv. þm. Ólöfu Nordal að hér séu vaxandi átök innan stjórnarliðsins. Það eina sem hæstv. forsætisráðherra virðist hafa uppi í erminni þrátt fyrir alla sína þingreynslu og stjórnmálareynslu, hún er komin á fjórða tug ára held ég, er að sýna enn þá meiri óbilgirni, enn þá meiri þvermóðsku og hörku við að reyna að berja mál í gegn. Hvort hægt sé að brjótast út úr þessu á kjörtímabilinu eða hvort það sé kannski orðið of seint, ég skal ekki segja um það. Ég get hreinlega ekki svarað því því að ég held að boltinn sé að verulegu leyti hjá hæstv. forsætisráðherra.

Á síðustu tveimur vikum eða svo hafa formenn þingflokka stjórnarandstöðuflokkanna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, ítrekað boðið stjórnarliðum, formönnum þingflokka stjórnarliðanna, að taka mikilvægari mál á dagskrá en þeim er alltaf ýtt af hæstv. forsætisráðherra aftur fyrir þetta eina stjórnarráðsmál sem mikill ágreiningur um. Hæstv. forsætisráðherra virðist hreinlega ekki hafa það í sér að geta gefið eftir á því sviði.

Ég held að það verði hreinlega mjög erfitt fyrir núverandi ríkisstjórn að breyta viðhorfi sínu til þessa. Fyrir líklega einu ári var talað um að breyta ætti þingsköpum. Það átti jafnvel að gera það þannig að formenn nefnda kæmu úr röðum stjórnarandstöðunnar til að auka vægi hennar og efla sjálfstæði þingsins. Það var ekki meira að marka það en svo að þegar hv. þm. Atli Gíslason sagði á sama tíma skilið við stjórnina og gekk út úr stjórnarliðinu, var honum þann sama dag kippt út sem formanni (Forseti hringir.) í nefnd. Honum var ekki einu sinni treyst til að vera formaður í nefnd. (Forseti hringir.) Ég get því ekki svarað því hvort hæstv. ríkisstjórn geti breytt viðhorfi sínu.