140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:22]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég vil staldra aðeins við vinnulagið og verklagið, þingmannanefndina margfrægu og einróma niðurstöðu hennar. Nú liggur fyrir að við þá vinnu rýndu þingmenn í söguna og reyndu að draga lærdóm af þeim vinnubrögðum sem tíðkast höfðu áður en nefndin skilaði af sér. Mér leikur nokkur forvitni á að vita hvort nefndin hafi við þá rýni rekist á álíka stöðu og við sjáum nú á þessu þingi. Í hverju málinu á fætur öðru reynir meirihlutastjórnin að knýja fram mál þannig að innan raða hennar logar allt í illindum og jafnvel gengur svo langt að ráðherrar víkja og koma fram í umræðum um einstök mál á móti ríkisstjórninni sem þeir áttu sæti í. Í mínum huga er þetta ástand orðið þannig að það jaðrar við að vera hálfstjórnlaust hvernig atburðarásinni vindur fram. Mér þætti vænt um að heyra skoðanir hv. þingmanns á því hvort sagan geymi álíka stöðu eins og uppi er núna, undir þeirri verkstjórn sem á að vera af hálfu hæstv. forsætisráðherra sem kaus að kalla sig verkstjóra ríkisstjórnarinnar. Það væri fróðlegt að heyra hvaða lærdóm megi draga af fyrri árum.

Tilfinning mín er sú að þetta sé að versna og óreiðan, ef maður getur sagt sem svo, sé meiri nú en hún hefur nokkurn tíma verið síðustu tíu til fimmtán ár.