140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:25]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er ákaflega góð spurning hjá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni. Svarið liggur eiginlega í ályktun þingmannanefndarinnar þar sem fjallað er um stjórnsýsluna eins og hún var. Ég ætla að fá að lesa eina setningu eða tvær, með leyfi forseta, en á bls. 11 segir:

„Oddvitaræðið og verklag þess sem tíðkast hefur í íslenskum stjórnmálum undanfarna áratugi dregur úr samábyrgð, veikir fagráðherra og Alþingi og dæmi eru um að mikilvægar ákvarðanir hafi verið teknar án umræðna í ríkisstjórn. Slíkt verklag er óásættanlegt.“

Og litlu síðar segir, af því að það var sannarlega bent á að endurskoða ætti lög um Stjórnarráðið:

„Við endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands telur þingmannanefndin mikilvægt að fram komi hvaða reglur eigi að gilda um pólitíska starfsmenn ráðherra. Þá verði verklag innan ráðuneyta samræmt sem og skráning samskipta og skýrt sé með hvaða hætti ráðuneyti hafi eftirlit með þeim sjálfstæðu stofnunum sem undir þau heyra.“

Svo er í framhaldinu fjallað um það að brýnt sé að innan ráðuneytanna sé til staðar sú fagþekking og reynsla sem nauðsynleg er og skýrt sé hvaða ráðherrar beri ábyrgð á hvaða sviði.

Nú ætla ég ekki að dæma um allt, hvorki það sem hefur gerst áður né það sem núverandi ríkisstjórn hefur gert. En það eru til dæmi. Til dæmis var Varnarmálastofnun lögð niður. Hún heyrir núna undir tvö ráðherra tímabundið. Hvor þeirra ber ábyrgð á málaflokknum og hvenær grípur annar fram fyrir hendur hins? Það er óljóst. Við getum líka nefnt flutning á stofnunum, t.d. Hafrannsóknastofnun sem á að heyra að einhverju leyti undir atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, að því er við best vitum, en ákveðnir þættir eiga síðan að heyra undir auðlinda- og umhverfisráðuneytið. Hvor ráðherrann mun bera hina faglegu ábyrgð? Það er algerlega óljóst. (Forseti hringir.) Ég tel að með tilvísun til skýrslu þingmannanefndar sé enginn grunnur fyrir því sem hæstv. forsætisráðherra er að leggja til.