140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:27]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni greinargóð svör. Þetta staðfestir í rauninni þá tilfinningu sem hefur vaxið við umræður um þetta mál, þó svo að þeim sé komið þannig að mönnum þyki sumum hverjum nóg um.

Það er annar vinkill sem ég hefði viljað taka líka sem snýr að því hvers vegna þingið lendir í þeirri stöðu sem við erum lent í núna, vinnsla mála er orðin hálfgerð froða og mál ber þannig að þinginu að hér logar allt í deilum um einstök mál og í þessu tilfelli um Stjórnarráðið.

Ef við lítum aðeins upp úr málinu sjálfu og íhugum hvaða leiðir við getum farið út úr þessu ástandi, þá er mín tilfinning sú að til að létta á því ástandi sem skapast um umdeild, einstöku mál þurfi þingflokkar að finna leiðir til að koma sér saman um dagskrána áður en menn hleypa henni í þennan hnút sem myndast, eins og nú undir þessum skilmálum. Mér þætti vænt um að heyra frá hv. þingmanni hvort þetta hafi ekki komið til umræðu í þeirri vinnu sem hv. þingmaður tók þátt í, hvaða leiðir þingmannanefndin sá til að forða þinginu frá þeirri stöðu sem skapast þegar ósamið er um mál og reynt er að gera það undir umræðum. Ég held að það sé þarft að hugleiða hvernig við getum brotist út úr þessari stöðu sem nánast má líkja við herkví. Þetta er bara stál í stál, menn komast ekki að samkomulagi. Við verðum að finna einhverjar aðrar leiðir til að miðla málum áður en til þeirrar stöðu kemur.