140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:32]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um breytingar á Stjórnarráði Íslands. Ég hef farið hér í fyrri ræðum mínum yfir það sem snýr að stofnanaumgjörð er varðar fjármálamarkaði, fjármálaeftirlit, peningamálastjórn, hagstjórn og annað slíkt og lagalegu umgjörðina um fjármálamarkaði. Ég hef bent á að ef raunverulega verður farið eftir þessari þingsályktunartillögu verður stofnanaumgjörðinni breytt á þann hátt að það veikir umgjörðina um fjármálamarkaðinn.

Annað mál hefur verið mér hugleikið í þessu. Það er sameining umhverfisráðuneytis og auðlindanýtingarhlutans. Mér finnst það vera óheillaþróun að sameina þessa tvo málaflokka í sama ráðuneyti vegna þess að þeir eru eðlisólíkir. Af hverju segi ég að umhverfismál og auðlindamál séu eðlisólík? Jú, ég segi það vegna þess að í umhverfismálum er tilhneiging til þess, eins og við höfum séð í núverandi umhverfisráðuneyti, að vilja toga hlutina alla í þá átt að vernda umhverfi, minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda og annað slíkt en í auðlindaráðuneyti er meiri tilhneiging til að hugsa um efnahagslegar afleiðingar sem getur vissulega haft í för með sér umhverfisógn að einhverju leyti eða alla vega að farið er öðruvísi með umhverfið en þeir sem fókusera beint á umhverfismál hefðu helst kosið.

Við sjáum þetta mjög vel í ráðuneytum erlendis þar sem auðlinda- og umhverfisráðuneyti hafa verið sameinuð og sinna þessum málum saman. Hér á landi höfum við til dæmis litið á hvalveiðar sem auðlindanýtingarmál og höfum viljað nýta hvali á sjálfbæran hátt þegar aftur á móti er litið á hvalveiðar sem umhverfismál í umhverfisráðuneytum innan Evrópusambandsins. Það er einfaldlega flokkað sem umhverfismál að banna hvalveiðar. Það er ekki auðlindanýtingarmál þar.

Ég er hræddur um að ef við horfum á sameinað umhverfis- og auðlindaráðuneyti á Íslandi verði farið í þennan farveg og við hættum að nýta auðlindir eins og hval, sem við höfum nýtt frá aldaöðli og Íslendingar hafa veitt og nýtt eins lengi og elstu menn muna þó svo að nýtingin hafi kannski ekki verið af neinum krafti fyrr en fyrir þarsíðustu aldamót þegar Norðmenn komu hingað og veiddu mikinn hval og Íslendingar fóru að veiða hval. Ég hef áhyggjur af því að hér skuli menn ætla að setja auðlinda- og umhverfismál í sama farveg vegna þess að ég tel að það muni leiða til þess að of lítil auðlindanýting verði sem þýðir að lífskjör verða verri en ella hér á landi.

Ég geld varhuga við því stofnanafyrirkomulagi sem boðað er í þessu frumvarpi og tel það vanhugsað, enda sjáum við þau mál sem ég er að tala um hvergi nefnd í greinargerð, hvorki kosti né galla við að gera það, þannig að það heggur allt (Forseti hringir.) í sama knérunn, þetta er vanbúið mál.