140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:39]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir góða spurningu. Ég held að hv. þingmaður hafi akkúrat hitt naglann á höfuðið. Það er þetta sem ég var að reyna að segja áðan, að með því að sameina þetta í eitt ráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, held ég að jafnvægið raskist. Nákvæmlega eins og framsóknarmenn eru náttúrubörn erum við sjálfstæðismenn það líka. Auðvitað er ég ekki að tala um að við eigum að valta yfir umhverfið eða nýta það á ósjálfbæran hátt, ég er einmitt að tala um að við eigum að nýta umhverfið á sjálfbæran hátt.

Eins og við höfum heyrt úr umhverfisráðuneytinu núna og sjáum vel í rammaáætlun og í breytingum á stjórnkerfi fiskveiða þá er efnahagslegri sjálfbærni fórnað fyrir algjörlega ósnerta, vannýtta náttúru. Það er ekki umhverfisvernd, það er bara öfgasjónarmið þar sem ekki er viðurkennt að maðurinn lifir á því að nýta auðlindir jarðar og náttúru. Það er miklu líkara trúarbrögðum en að nálgast þetta á praktískan hátt eins og við náttúrubörnin í Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum höfum gert í gegnum árin, áratugina og aldirnar, enda tiltölulega nýtt fyrirbæri þessi umhverfissósíalismi sem við erum að sjá. Við þekkjum þetta náttúrlega ekki, náttúrubörnin í Framsókn og Sjálfstæðisflokki.