140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er feginn að heyra að hv. þingmaður hefur sama skilning á þessu og ég og deilir áhyggjum mínum. Þegar umhverfisráðuneytið var stofnað var það að sjálfsögðu hugsað þannig að áherslan hjá því ráðuneyti yrði á verndun þegar áherslan hjá iðnaðarráðuneytinu hefur kannski frekar verið á nýtingu. Þetta hefur skilað sér í því að ákveðið jafnvægi hefur skapast, aðhald veitt úr báðum áttum. Niðurstaðan átti að minnsta kosti að verða ákveðið jafnvægi og menn ætluðu síðan að leitast við að ná fullkomnun í því að ná jafnvægi á faglegum nótum með hinni svokölluðu rammaáætlun sem nú er einnig verið að varpa fyrir róða. Það hvernig komið er fyrir rammaáætluninni hlýtur að vera ótvíræð vísbending um hvernig menn mundu fara með þessa hluti eftir að búið væri að sameina nýtingu og verndun í umhverfisráðuneyti. Vísbendingarnar gefa allar til kynna að áhyggjur hv. þingmanns séu réttmætar.

Ég ætla að fá að heyra álit hv. þingmanns, ef hann vildi vera svo góður, á því sem ég tel að sé alveg ný tilraun í stjórnmálasögunni, sem er sósíalistastjórn án orkuframleiðslu. Við höfum auðvitað séð kommúnista- og sósíalistastjórnir gegnum tíðina í hinum ýmsu löndum. Þar hefur þó iðulega verið gengið mjög langt í því að framleiða orku, oft á kostnað náttúrunnar og oft mjög illa farið með náttúruna. En menn hafa þó verið að framleiða orku vegna þess að öðruvísi hefði samfélagið ekki gengið undir sósíalismanum. (Forseti hringir.)

En hér erum við með merkilega tilraun sem væri áhugavert að heyra álit hv. þingmanns á, sósíalisma án orku.