140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Nú er komið að því að þessari umræðu fari að ljúka. Rætt hefur verið um framhald mála og alltaf gott þegar að því er komið. Ég vil hins vegar, áður en þetta er klárað með hefðbundnum hætti, koma því á framfæri að það hefur verið skoðun okkar að það væru önnur og brýnni mál sem þyrfti að ræða en þetta, þetta væri ekki stóra málið sem þjóðin væri að kalla eftir.

Við höfum bent á að í nefndum þingsins væru mál, meðal annars mál sem við framsóknarmenn höfum lagt fram, sem eru til þess fallin og hafa það markmið að bæta stöðu heimila og fyrirtækja. Vil ég þar nefna sérstaklega mál nr. 695 er snýr að því að setja þak á hækkun verðtryggingar og fleira í þeim dúr. Þetta eru allt mál sem við ættum að sjálfsögðu að vera að ræða og þetta eru mál sem við munum að sjálfsögðu leggja áherslu á nú á næstu dögum þegar farið verður að semja enn frekar um lyktir hér í þinginu.

Ástæða þess að ég nefni þetta, frú forseti, er sú að ég fæ ekki séð að nokkurt einasta mál frá ríkisstjórninni, af þeim sem eru komin fram eða munu koma fram, sé til þess fallið að taka á þeim mikla vanda sem heimili og rekstrarfyrirtæki hér á landi eru í. Þannig sé ég þetta mál, frú forseti.

Ég mun ekki hafa þessi orð fleiri. Það er, að mér skilst, komið að öðrum dagskrárliðum. En ég vildi enda þessa umræðu með þeim orðum að forgangsröðunin er með ólíkindum hjá ríkisstjórninni.