140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er gott að fólk getur beðist afsökunar eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir gerði þegar hún fór hér yfir það að hún las upp úr trúnaðarbréfi sem forsætisnefnd barst. Það breytir því ekki, frú forseti, að ég kalla enn eftir því jafnræði sem þarf að vera milli þingmanna því að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur ekki fengið áminningu fyrir brot á þingsköpum eins og ég fékk. Ég ítreka því þá ósk mína að settar verði samræmdar reglur um hverja má vitna í og hverja ekki í þessum ræðustól. Það var samt ekki erindið í þessa umræðu.

Ég ætlaði að fjalla um hina svokölluðu Evrópuviku sem stækkunardeild ESB stendur fyrir í gegnum Evrópustofu og sendiherra ESB á Íslandi. Þessir aðilar eru óþreytandi við að þeytast um landið og bera út vonlausan boðskap. Akkúrat í þessari sömu viku og hin svokallaða Evrópuvika er barst ný skoðanakönnun í þá átt að 64% stjórnenda í íslensku atvinnulífi eru alfarið á móti aðild að Evrópusambandinu. (Gripið fram í.) Það hafa komið fram fleiri skoðanakannanir sem sýna nákvæmlega sama hlutfall og er ég að vísa í skoðanakönnun sem Samtök iðnaðarins stóðu fyrir. (Gripið fram í.) Það er ekki hægt að finna einn hóp í samfélaginu, stofnun eða samtök sem eru fylgjandi því að ganga í Evrópusambandið.

Úr því að hæstv. utanríkisráðherra situr í salnum langar mig að varpa fram spurningunni: Hvenær ætlar hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. ríkisstjórn að draga frá gluggatjöldin og yfirgefa brennandi tröppurnar í Brussel og hætta þessu bjölluati sem þau eru að leiða yfir íslensku þjóðina?