140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Í gær var mjög góð umræða, sérstök umræða, sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hafði forgöngu um. Hún hefur ekki vakið mikla athygli en ég vildi aðeins taka á því máli og vekja athygli á þeim vítahring sem við erum komin í. Þá er ég að vísa í umræðuna um Íbúðalánasjóð en í þessari umræðu kom fram að nú þegar hafa 30 milljarðar farið í að styrkja stöðu sjóðsins. Samt vantar mikið upp á að eiginfjárhlutfall hans sé í lagi og líkur á því að setja þurfi meiri fjármuni þar inn.

Sjóðurinn á núna 1751 íbúð miðað við svar sem ég fékk frá hæstv. velferðarráðherra í febrúar. Það er meira útstreymi úr sjóðnum en sem nemur lánunum sem tekin eru. Það er alveg ljóst að fólkið sem er fast inni með verðtryggðu lánin sín er fólkið sem hefur ekki efni á því að borga gríðarlega há uppgreiðslugjöld. Ég tel að ástæðan fyrir því að fólk tekur óverðtryggð lán í auknum mæli sé sú að það hefur, af góðri ástæðu, áhyggjur af verðbólguskoti.

Núna erum við í þeirri stöðu að þær aðgerðir sem við höfum farið í hafa ekki borið þann árangur að bæta hag skuldsettra heimila. Það er fyrst og fremst gengislánadómurinn sem hefur hjálpað þeim sem eru með slík lán. Við eigum á hættu, virðulegi forseti, að fá aðra holskeflu af vandamálum ef hér verður verðbólguskot. Við erum með ríkisbankann, Íbúðalánasjóð, sem er með stærstan hlutann af þeim lánum. Hann er sömuleiðis með stærsta hlutann af íbúðunum sem haldið er hjá ríkinu til að halda uppi íbúðaverði. Það er ekkert ungt fólk sem hefur efni á því að kaupa sér íbúð núna. (Forseti hringir.) Þetta eru stóru málin sem við ættum að vera að ræða núna en ekki þau mál sem við ræðum hér langt fram eftir nóttu.