140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Fyrr í þessari umræðu voru nefnd vandamál um fiskveiðistjórnina og kvótamálin. Fyrir Alþingi liggja þrjú frumvörp um kvótamál, þar af tvö frá ríkisstjórninni. Annað þeirra byggir á ofurskattlagningu og hitt byggir á því að búa til Útgerðarfélag Íslands ohf. eftir 20–30 ár.

Hins vegar er frumvarp mitt um að dreifa kvótanum á þjóðina, íbúa landsins, sem er ákveðin tilraun til málamiðlunar, þá á löngum tíma þannig að útgerðarmenn núna geti vel við unað. Útgerðarmenn landsins hafa þurft að sæta ofsóknum alla tíð, búa við mikla óvissu og miklar árásir á eign sína sem gerir það að verkum að krafa til ávöxtunar í útgerð er mjög há. Mín hugmynd gengur út á að þeir haldi veiðirétti sínum til 40 ára, það verði afskrifað á hverju ári um 1/40 og tryggt með lögum að þetta sé eign þeirra. Þannig verða þeir vel settir, það mun auka fjárfestingu í útgerð og þar sem allur kvóti fer þá á markað mun það auka aðgengi nýrra aðila að útgerðinni. Þetta mun leysa mjög mörg vandamál sem við erum að glíma við. Ég skora á hv. þingmenn að skoða þessa leið jafnframt þeim sovésku leiðum sem hæstv. ríkisstjórn boðar. (Gripið fram í.)