140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:12]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er meðal annars verið að greiða atkvæði um það hvort leggja skuli niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðneytið og sameina hluta þess iðnaðarráðuneyti og efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Ég er þessu mótfallinn. Ég tel að stjórnvöld hafi öðrum brýnni verkefnum að sinna en að rótast í uppstokkun á ráðuneytum, skapa óvissu um verkefni og svið ráðuneytanna og setja starfsöryggi fjölda fólks í uppnám á síðasta ári þessarar ríkisstjórnar.

Ég minni jafnframt á að flokksráð Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur ályktað gegn þessum breytingum og krafist þess að ekki verði unnið áfram að þeim án undangenginnar umræðu í flokknum. Þetta var áréttað á síðasta landsfundi flokksins þegar tillaga kom um að hverfa frá þessari stefnu en henni var vísað frá.

Lögð hefur verið áhersla á einmitt það að vera með þessa umsókn í gangi gagnvart sjávarútvegi og landbúnaði og líka Evrópusambandsumsóknina. (Forseti hringir.) Hún er ekki á stefnuskrá Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, en þessir tveir þættir (Gripið fram í.) spila svo rækilega saman. Ég verð að segja, frú forseti, (Gripið fram í: … Samfylkingarinnar.)(Forseti hringir.) allar greinar atvinnulífsins, sjávarútvegs og landbúnaðar, hafa lagst gegn áformunum um að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.