140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ekki sanngjarnt að segja að þetta mál sé illa undirbúið. Það er ekkert undirbúið. Það er ótrúlegt að koma hér með hugmynd sem er þvert á stefnu ríkisstjórnar og nokkuð sem hún er búin að guma yfir endalaust, að leggja niður efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Þetta er enn ein birtingarmynd pólitískra hrossakaupa núverandi stjórnarflokka. Það eru einu rökin sem hafa komið fram í þessu máli.

Það er bara eitt öruggt við þetta mál, virðulegi forseti, og það er að það mun kosta peninga. Við vitum ekki hversu mikla peninga, en við sjáum núna að bara breytingar á húsnæði Stjórnarráðsins munu kosta um hálfan milljarð króna á þessu kjörtímabili.

Hér eru fulltrúar Vinstri grænna að lesa upp úr ályktunum og ræðum og ég hvet þá til að lesa ræðu formanns síns, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, frá 4. desember 2007 þegar ræddar voru breytingar (Forseti hringir.) á Stjórnarráðinu. Ég gæti jafnvel lesið hana fyrir þá ef þeir hafa áhuga á því, virðulegi forseti.