140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:24]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er margt gagnrýnivert í því ferli sem stjórnarráðsbreytingarnar hafa verið settar í. Ég tel að Alþingi þurfi á komandi tíð að taka ýmsar áherslur til gagngerrar endurskoðunar, svo sem eðli aukinnar miðstýringar. Þá hefur þessi umræða samfléttast átökum um veru tiltekinna ráðherra í ríkisstjórn eða öllu heldur tilraunum til að koma þeim út úr ríkisstjórn. Það hefur ekki verið til góðs og ég held til haga fyrri gagnrýni minni um þessi mál almennt. Á hinn bóginn hef ég alla tíð verið eindregin talskona þess að efla umhverfisráðuneytið og fella auðlindamál þar alfarið undir.

Gagnrýni mín á þetta frumvarp er einkum sú hve skammt er gengið í þeim efnum. Svo dæmi sé tekið er ekki með skýrum hætti gert ráð fyrir því að rannsóknir á hafinu og lífríki sjávar falli alfarið undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Þetta þarf sannarlega að skoða til framtíðar. Styrking stjórnsýslu umhverfismála veldur því hins vegar að ég styð þetta frumvarp, en með tilvísan í þær áherslubreytingar sem gera þarf til framtíðar, enda eðlilegt að stjórnsýslan almennt sé stöðugt í þróun.